„Staðan er bara mjög alvarleg

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„Við vorum að vonast til þess að ríkisstjórnin myndi kynna einhverjar breytingar á skattkerfinu sem kæmi lágtekjufólki og millitekjuhópum til góða en það liggur ekkert fyrir í þeim efnum og verður ekki klárt fyrr en einhvern tímann í janúar.“

Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við mbl.is en hann sat í dag fund í ráðherrabústaðnum þar sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins fóru yfir stöðuna í kjaramálum. Vilhjálmur segir aðspurður ekki mikið hafa komið út úr fundinum enda hafi þetta í raun aðallega verið spjallfundur.

„Ég skal alveg fúslega viðurkenna það að þegar nokkrar mínútur eru þar til kjarasamningar renna út þá er maður ekkert rosalega bjartsýnn þessa stundina,“ segir Vilhjálmur um stöðuna. „Mér finnst mjög undarlegt miðað við þá alvarlegu stöðu sem er uppi á íslenskum vinnumarkaði að það skuli ekki hafa komið einhvers konar drög sem hefðu kannski getað mildað verkalýðshreyfinguna í þeim viðræðum sem framundan eru.“

Ekkert slíkt hafi hins vegar verið lagt fram af fulltrúum ríkisstjórnarinnar, en fundinn sátu fyrir hönd hennar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. Vilhjálmur segir ekki nóg að halda einhverja fundi. „Eitthvað af alvöru verði að koma út úr þessu.“

Hótanir í garð launafólks viðtekin venja

Varðandi ummæli Bjarna í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann sagði að endurskoða yrði áform um tekjuskattslækkanir ef samið yrði um óábyrgar launahækkanir, vísar Vilhjálmur í ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands (ASÍ) þar sem ummælin voru fordæmd. Vilhjálmur segir slíkar hótanir hins vegar ekkert nýtt frá fjármálaráðherra.

„Þetta er viðtekin venja þegar launafólk er í kjaradeilum þá er beitt hótunum,“ segir Vilhjálmur og bætir við að ýmsar stéttir þekki það af eigin raun. „Þetta er ekki til þess að auðvelda stöðuna.

Spurður um stöðuna hjá Verkalýðsfélagi Akraness segir hann að félaginu muni fylgja Eflingu eftir. Ef þar verði ákveðið á fundi í kvöld að afturkalla samningsumboðið muni félagið gera slíkt hið sama og mjög líklega mynda sameiginlega samninganefnd með VR.

„Staðan er bara mjög alvarleg,“ segir Vilhjálmur. Vísar hann ennfremur í ræðu sem Katrín flutti árið 2015, þá í stjórnarandstöðu, þar sem hún hafi tekið undir kröfur verkalýðshreyfingarinnar en þær kröfur séu nákvæmlega þær sömu og í dag.

„Það er það að fólk geti framfleytt sér á lágmarkslaunum á Íslandi þannig að þau dugi miðað við þau framfærsluviðmið sem velferðarráðuneytið hefur gefið út. Það er í grunninn okkar krafa. „Ég hefði viljað að þessi ræða væri flutt í dag. En það er bara þannig að þegar menn eru komnir við stjórnarborðið þá bara breytist tónn fólks algerlega sem er alveg óskiljanlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert