Vill að embætti séu auglýst

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. mbl.is/Sigurður Bogi

BHM gerir kröfu til stjórnvalda um vandaða stjórnsýsluhætti við ráðningar í störf. Þrátt fyrir að lög heimili annað þá eru það vandaðir stjórnsýsluhættir að auglýsa þegar til stendur að ráðstafa takmörkuðum gæðum, sem fyrirsjáanlegt er að færri geta fengið en vilja.

Þetta segir í yfirlýsingu frá Bandalagi háskólamanna (BHM) þar sem gagnrýnd er sú ákvörðun Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra að skipa nýverið í tvö embætti í nýju félagsmálaráðuneyti og embætti forstjóra Vinnueftirlits ríkisins án auglýsingar og nýta þess í stað heimild í lögum þess efnis að stjórnvald sem skipað hafi mann í embætti geti flutt hann í annað embætti sem heyrir undir það án auglýsingar. Bendir BHm á að auglýsingaskyldan sé meginregla við ráðningar í störf hjá ríkinu.

„Auglýsingaskyldan er í samræmi við þá skyldu sem hvílir almennt á stjórnvöldum að gæta jafnræðis milli borgaranna og stuðla að því að ríkið hafi ávallt á að skipa sem hæfustu starfsfólki. Enda þótt tilteknar undantekningar frá auglýsingaskyldu geti átt rétt á sér í sérstökum tilvikum telur BHM að of langt hafi verið gengið í því að lögfesta slíkar undantekningar á síðustu árum á kostnað gagnsærrar stjórnsýslu.“

Ennfremur segir í yfirlýsingunni: „Með auglýsingu er öllum sem áhuga hafa og uppfylla skilyrði gefið tækifæri á að sækja um. Að mati bandalagsins brjóta rúmar undantekningarheimildir við auglýsingar á lausum störfum hjá hinu opinbera í bága við jafnræðisreglur stjórnsýsluréttar ásamt því að draga úr gagnsæi í stjórnsýslunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert