Skert geta til að takast á við hópslys

Bráðamóttaka Landspítalans í Fossvogi. Landlæknir segir að vandi deildarinnar sé …
Bráðamóttaka Landspítalans í Fossvogi. Landlæknir segir að vandi deildarinnar sé af þeirri stærðargráðu að ekki verði lengur við unað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjúklingar sem bíða innlagnar á Landspítala þurfa nú að meðaltali að vistast á bráðamóttöku í 23,3 klukkustundir, en þessi vistunartími var 16,6 klukkustundir fyrir ári síðan. Hver hjúkrunarfræðingur þarf að sinna of mörgum sjúklingum, sem eykur hættuna á því að eitthvað fari úrskeiðis á bráðamóttökunni. Þessi og fleiri vandamál skerða getu bráðamóttökunnar til þess að takast á við hópslys, ef til þess kæmi.

Þetta er á meðal niðurstaðna úttektar, sem Embætti landlæknis réðst í vegna alvarlegrar stöðu sem skapast hefur á bráðamóttöku Landspítalans. Ábending barst frá sérfræðilækni í bráðalækningum til landlæknis um að öryggi sjúklinga á bráðamóttöku væri ógnað vegna mikils álags, þann 6. desember síðastliðinn.

Endanleg úttektarskýrsla liggur ekki fyrir, en Alma D. Möller landlæknir sendi Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra minnisblað á mánudag, sem nú hefur verið gert opinbert á vef landlæknisembættisins.

„Ljóst er að vandi sá sem hér um ræðir hefur verið til staðar um nokkurn tíma og áður verið bent á hann. Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða til mótvægis, bæði af hálfu Landspítala og yfirvalda. Nú er svo komið að vandinn er af þeirri stærðargráðu að við þetta ástand verður ekki unað. Það getur skapað jarðveg fyrir óvænt atvik og hættu á frekara brottfall starfsfólks,“ er á meðal þess sem landlæknir beinir til heilbrigðisráðherra.

Alma D. Möller landlæknir skilaði áliti sínu til Svandísar Svavarsdóttur …
Alma D. Möller landlæknir skilaði áliti sínu til Svandísar Svavarsdóttur á mánudag. mbl.is/Eggert

Sjúklingar útskrifast jafnvel án innlagnar á viðeigandi deild

Sem áður segir þurfa sjúklingar að vistast á bráðamóttöku í 23,3 klst. að meðaltali, en erlend viðmið gera að sögn landlæknis ráð fyrir því að sjúklingar dvelji ekki meira en 6 klst. á bráðamóttöku.

„Dæmi eru um að sjúklingar hafi þurft að bíða innlagnar í allt að 66 klst. og að sjúklingar útskrifist, þ.e. ljúki meðferð, án þess að hafa komist á viðeigandi deild,“ segir í áliti landlæknis, sem einnig nefnir að allt að 76 sjúklingar hafi verið á bráðamóttökunni samtímis, þar sem einungis er pláss fyrir 56 sjúklinga.

Aukin hætta á yfirsjón starfsfólks

Landlæknir segir augljóst að álag á starfsfólk sé mikið, þótt að reynt sé að manna í takt við verkefnin. Hver hjúkrunarfræðingur þarf að sinna of mörgum sjúklingum og við það eykst hætta á „atvikum“ eða því að eitthvað fari úrskeiðis á deildinni.

„Almennt er hætta á að starfsfólki sjáist yfir við slíkar aðstæður; eftirliti getur orðið ábótavant og hætta er á byltum, myndun þrýstingssára, að lyf séu ekki gefin á réttum tíma, að grunnþörfum sé miður sinnt og erfitt er að sinna sýkingavörnum svo vel sé,“ segir í áliti landlæknis.

Skráðum „atvikum“ tengdum umhverfi og aðstæðum á deildinni hefur fjölgað og eru þau orðin 51 talsins það sem af er ári, en hafa verið 29 á ári að meðaltali á undanförnum árum. Stærstur hluti atvika í þessum flokki eru byltur. Landlæknir tekur fram að svona sé staðan, þrátt fyrir að hætta sé á að atvik séu vanskráð þegar álagið er jafn mikið og raun ber vitni.

Rýrð geta til að takast á við hópslys

Í áliti landlæknis segir einnig að bráðamóttakan sé hönnuð og skilgreind sem göngudeild og að skipulag húsnæðis miðist við það. Salernisaðstaðan sé ekki í samræmi við þarfir og skortur sé á einbýlum. Það gerði það „ómögulegt að sinna sýkingavörnum eins og vera ber“ auk þess sem augljóst sé að „friðhelgi einkalífs er ekki tryggð við aðstæður sem þessar.“ Þegar sjúklingar eru vistaðir á gangi verði einnig erfiðara að skoða þá og taka sjúkrasögu, sem geti haft áhrif á greiningu og meðferð.

Landlæknir segir augljóst að álag á starfsfólk sé mikið, þótt …
Landlæknir segir augljóst að álag á starfsfólk sé mikið, þótt að reynt sé að manna í takt við verkefnin. mbl.is/Árni Sæberg

„Þessi vandamál skerða getu deildarinnar til að takast á við hópslys ef til þess kæmi,“ skrifar landlæknir og segir það mikið áhyggjuefni að þessi staða sé uppi nú, áður en inflúensutímabilið gengur í garð. „Reynsla fyrri ára hefur sýnt að þá versnar staðan og tími frá komu að innlögn lengist enn frekar. Kemur þá til bæði aukin aðsókn sem og veikindi starfsmanna,“ skrifar landlæknir.

Vantar úrræði utan spítalans og fleiri hjúkrunarfræðinga

Landlæknir segir vandann aðallega tilkominn vegna tveggja meginþátta. Annars vegar sjúklinga sem lokið hafa meðferð á spítalanum en geta ekki útskrifast þar sem úrræði skortir utan sjúkrahússins, en  þar er einkum um að ræða aldraða sem bíða eftir hjúkrunarrými. Sá vandi hefur farið stigvaxandi, að sögn landlæknis, en þann 10. desember biðu 53 einstaklingar á bráðadeildum og endurhæfingu.

„Hins vegar hefur þurft að loka legurýmum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Þann 13. desember voru 39 rúm á legudeildum lokuð vegna þessa. Þessi vandi hefur sömuleiðis farið stigvaxandi,“ segir í álitinu.

Alma Möller landlæknir og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Alma Möller landlæknir og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert

Landlæknir beinir ákveðnum til heilbrigðisráðherra hvað þessa tvo meginþætti, útskriftar- og mönnunarvandann varðar. Á meðal þess er að öldrunarheimili á Seltjarnarnesi verði opnað eins og mögulegt er og að opnun sjúkrahótels verði flýtt eins og unnt er. Þá verði heimahjúkrun og heimaþjónusta efld og áhersla lögð á samhæfingu öldrunarþjónustu.

„Til lengri tíma þarf að ráðast í nákvæma greiningu á þörf fyrir hjúkrunarrými, heimahjúkrun og heimaþjónustu. Ennfremur ætti að auka áherslu á heilsueflingu eldri borgara,“ segir landlæknir og bætir svo við að lokum að efla þurfi mönnun, sérstaklega í stéttum hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, bæði til skemmri og lengri tíma. Það þoli enga bið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert