„Ýmiskonar“ veður næstu daga

Svona lítur vindaspá Veðurstofu Íslands út fyrir gamlárskvöld um sexleytið. …
Svona lítur vindaspá Veðurstofu Íslands út fyrir gamlárskvöld um sexleytið. Það mætti vera betra. Kort/Veðurstofa Íslands

Það munu skiptast á skin og skúrir á landinu næstu daga og um helgina. Á gamlársdag er gert ráð fyrir lægð yfir landinu með slyddu og snjókomu en það á að þorna sunnanlands. Spáð er norðaustanátt, sem er jákvætt, að sögn veðurfræðingursem mbl.is ræddi við. 

„Það verður ýmiskonar veður [fram að gamlársdegi]. Á morgun og laugardag er verið að spá éljum vestantil á á landinu en léttskýjað austan til. Hitinn sígur hægt niður,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann segir að það verði frost um mest allt land á laugardag og hitinn á bilinu 0 til 5 gráður víða. Á sunnudag sé svo að koma úrkomusvæði yfir landið þannig það er verið að gera ráð fyrir slyddu og snjókomu, fyrst sunnanlands sem fer yfir í rigningu.

Þokkalegt á gamlárskvöld

„Svo er það blessaður gamlársdagurinn. Það er gert ráð fyrir því að það verði lægð yfir landinu með úrkomu og þá víða slyddu eða snjókomu. Ef spáin gengur eftir þá þornar um kvöldið syðra en það verður áfram úrkoma fyrir norðan,“ segir Haraldur.

Allt í allt segir hann að veðrið á gamlárskvöld ætti að vera þokkalegt. Þá segir hann að verið sé að spá „norðanstrekkingi sem er svo sem jákvætt upp á rykið og reykinn.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Suðvestan 8-15 og él, en hægari og léttskýjað á A-verðu landinu. Frostlaust við S- og V-ströndina, annars 0 til 5 stiga frost. 

Á sunnudag:
Gengur í norðaustan 8-13 með snjókomu og vægu frosti, fyrst S-til. Rigning S-lands þegar líður á daginn og hiti 1 til 6 stig. 

Á mánudag (gamlársdagur):
Norðaustanátt og víða slydda eða snjókoma, en þurrt sunnan heiða um kvöldið. Hiti 0 til 5 stig, en kólnar seinni partinn. 

Á þriðjudag (nýársdagur):
Austlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað, en dálítil él A-lands. Kalt í veðri. 

Á miðvikudag:
Suðaustanátt og skýjað með köflum, en léttsýjað á N- og A-landi. Hiti 0 til 5 stig við S-ströndina, annars 0 til 10 stiga frost, kaldast NA-lands. 

Á fimmtudag:
Suðaustanátt og dálítil rigning eða slydda S- og V-lands. Hlýnandi veður.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert