Hríðarbylur aðfaranótt gamlársdags

Veður ætti ekki að setja strik í reikninginn fyrir gleðskap …
Veður ætti ekki að setja strik í reikninginn fyrir gleðskap á gamlárskvöld. Ljósmynd/Jón Snær Ragnarsson

Útlit er fyrir að það verði hríðarbylur með snjókomu og éljagangi um allt norðanvert landið aðfaranótt gamlársdags og fram yfir hádegi og undir kvöld austanlands, að sögn Birtu Lífar Kristinsdóttur, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Veður ætti þó ekki að setja strik í reikninginn fyrir gamlárskvöld en fólk sem ætlar að ferðast milli landshluta fyrir áramótin ætti að líta til veðurs. 

Veðurstofan birti í dag gula viðvörun fyrir allt norðanvert og norðvestanvert landið aðfararnótt gamlársdags. Gert er ráð fyrir að veður gangi niður fyrir kvöldið og þá verði þurrt um allt landið vestanvert, hægur vindur og aðeins örlítið él norðaustantil. Þá verði vindstig 10-15 m/s allra austast á landinu, á Austurlandi að glettingi og Austfjörðum. 

Þá sé ástæða til þess að fólk sem ætlar sér að ferðast milli landshluta fyrir áramótin hugi að því að fara fyrr að stað en ella vegna veðursins. „Það væri betra, ef fólk getur komið því við, að fara frekar af stað á morgun heldur en á gamlársdag,“ segir Birta Líf í samtali við mbl.is.

Veður ætti þó ekki að setja strik í reikninginn fyrir gleðskapinn á gamlárskvöld né trufla brennur þar sem útlit er fyrir að veðrið verði að mestu gengið niður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert