Samvera með gæludýrum mikilvæg um áramót

Hundum líður best í kringum eigendur sína í öruggu umhverfi …
Hundum líður best í kringum eigendur sína í öruggu umhverfi um áramótin þar sem margir eru viðkvæmir fyrir sprenginginum flugelda. AFP

Samvera gæludýra og eigenda þeirra í öruggu umhverfi er aldrei mikilvægari en í kringum áramótin, segir Rakel Linda Kristjánsdóttir, kennari og formaður Félags ábyrgra hundaeigenda. Hún segir jafnframt að margir eigendur þurfi að hugsa fram í tímann, gera ráðstafanir og útvega lyf og annað svo dýrin höndli áramótin, þar sem fjöldi hunda sé afar viðkvæmur fyrir flugeldasprengingum.

„Það eru margir hundar sem fælast og það er það sem hundaeigendur þurfa að passa sig á. Þeir geta ekki mikið verið að hafa þá lausa á þessum árstíma. Þú veist aldrei hvenær það er sprengt þó svo að það megi bara sprengja á ákveðnum tímum og því miður hafa margir hundar farið illa út úr því,“ segir Rakel. 

Hún segir að sá tími sem heimilt er að sprengja flugelda samkvæmt íslenskum reglum, e. frá 28. desember til 6. janúar frá 10:00-22:00 að nýársnótt undanskilinni, sé nokkuð langur fyrir dýrin að þola slíkt hnjask. Þá segir hún að hundum líði best nálægt sínu fólki í aðstæðum þar sem þau eru óörugg og því mikilvægt að skilja viðkvæm dýr ekki eftir í slíkum kringumstæðum. 

Eins segir Rakel að hundaeigendur ættu ekki að setja dýrin í aðstæður sem þau höndla illa, svo sem á áramótabrennur eða svæði þar sem margir koma saman til að sprengja flugelda. „Fælt dýr er ekki líkt sínu eðli. Það heldur kannski að eitthvað alvarlegt sé að gerast og fer í vörn.“

Skapa þægilegar aðstæður

Rakel segir að margir hundaeigendur hafi séð þann einn kost að fara út úr þéttbýli með dýrin en þó sé enn mikilvægt að hafa varann á, einnig í rólegra umhverfi. „Þó svo að fólk sé að fara út úr bænum þá þarf það að vera mjög vart um sig og passa upp á dýrin sín. Það skiptir einnig mjög miklu máli að taka aldrei hálsólarnar af dýrunum og hafa þau merkt allan sólarhringinn.“ 

Rakel á sjálf tvo hunda og segist hafa gert ráðstafanir fyrir hápunkt sprenginganna, sem er jafnan á gamlárskvöld. „Við erum mest allt kvöldið með okkar dýrum, kaupum ekki flugelda sjálf en röltum stundum á brennu og þá tökum við hundana ekki með okkur. Það er alltaf einhver eftir heima til þess að vera hjá dýrunum. Við reynum að skapa þægilegar aðstæður, t.d. með því að spila tónlist, þannig að þeim líði vel,“ segir Rakel að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert