Hávaði og tjón vegna flugelda í nótt

mbl/Arnþór

Töluvert var um tilkynningar í gærkvöldi og í nótt vegna ölvunar,  partýhávaða og hávaða frá flugeldum. Eitthvað var um tjón vegna flugelda, meðal annars rúðubrot, auk þess sem póstkassi var sprengdur.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Vildi far heim hjá lögreglunni 

Um hálftvöleytið í nótt var ölvaður maður handtekinn í miðbæ Reykjavíkur. Lögreglumenn voru við störf og höfðu stöðvað ökutæki sitt, sem var kyrrstætt og með blá neyðarljós tendruð. Maðurinn opnaði þá dyr lögreglubifreiðarinnar og vildi að honum yrði ekið heim. Þegar lögreglumenn reyndu að vísa honum burt neitaði hann að fara og vildi aðspurður ekki gefa upp nafn eða kennitölu. Maðurinn var færður á lögreglustöð þar sem reynt var að ræða við hann og var hann síðan látinn laus.

Fimm ökumenn voru stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu í nótt, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Í Breiðholti um hálfáttaleytið í gærkvöldi var maður handtekinn grunaður um innbrot/þjófnað, hylmingu og vörslu fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert