Viðbygging við Frímúrarahúsið

Áformað er að byggja yfir bílastæði austan við hús Frímúrara.
Áformað er að byggja yfir bílastæði austan við hús Frímúrara. mbl.is/​Hari

Skipulagsyfirvöld í Reykjavík auglýsa nú til kynningar breytt deiliskipulag vegna Bríetartúns 3-5.

Umrædd lóð er austan við hús Frímúrarareglunnar á Íslandi. Með breytingunum er hæðarheimildum á byggingarlóðinni breytt „þannig að þær verða allt að 5 hæðir og inndregin hæð á hluta reitsins“ í staðinn fyrir 3 hæðir og inndregna hæð.

Eiríkur Finnur Greipsson, erindreki Frímúrareglunnnar, segir engar tímasetningar hafa verið ákveðnar í þessu efni. Næstu skref verði ákveðin á nýju ári.

Hann segir hugmyndir um að hafa atvinnuhúsnæði í byggingunni. Hótelrekstur komi til greina. Hins vegar hafi ekkert verið ákveðið varðandi notkunina og þá m.a. hvort reglan muni nota húsnæðið/hótelið. Þá sé m.a. órætt hvort reglan fjármagni uppbygginguna og eigi bygginguna. Hæpið sé að reglan taki allt þetta húsnæði undir starfsemina.

Fyrirhuguð viðbygging við Frímúrarahúsið.
Fyrirhuguð viðbygging við Frímúrarahúsið. mbl.is

Fram kemur í lýsingu að áætlað er að nýbyggingin muni hýsa starfsemi hótels og þjónustu tengda því.

Sé aðgreind frá Regluheimili

„Byggingin skal greinilega aðgreind frá Regluheimili með inndreginni tveggja hæða tengibyggingu [...] Á fyrstu hæð, í rýmum sem snúa að götu skal vera starfsemi svo sem þjónustu- og veitingarekstur [og] mögulegt er að hafa gistiherbergi í rýmum sem snúa alfarið að bakgarði. Á hæðunum fyrir ofan verður gistirými hótels.“ Þá kemur fram í kynningu að markmið þessara breytinga á deiliskipulaginu sé „m.a. að stuðla að þéttingu byggðar til styrkingar miðborginni og veita fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu svigrúm til aukinnar uppbyggingar og stækkunar“. Þá sé „lögð rík áhersla á að auka umhverfisleg gæði svæðisins með metnaðarfullum byggingum og útirýmum“. Mögulegt verður að hafa allt að 66 bílastæði í kjallara. Gönguleiðir verða við húsið.

Með þessari uppbyggingu breytist ásýnd Bríetartúns. Götumyndin breytist svo enn frekar þegar byggður verður 86 íbúða turn á horni Bríetartúns og Katrínartúns. Þar eru nú skrifstofuhús, sem hýstu m.a. WOW air, en þau verða rifin. Þá er rætt um 100 íbúðir á Sætúnsreit, norðan við Höfðatorg, en þar er nú m.a. Vegagerðin. Loks eru möguleikar á þéttingu byggðar á bílastæði norðan við lögreglustöðina, gegnt Regluheimilinu. Hefur slíkum bílastæðum fækkað jafnt og þétt í miðborginni á síðustu árum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert