1,3 milljónir sóttu Þingvelli

Gríðarlegur fjöldi ferðamanna skoðar Þingvelli á ferð sinni um Ísland.
Gríðarlegur fjöldi ferðamanna skoðar Þingvelli á ferð sinni um Ísland. mbl.is/Sigurður Bogi

Á ný hefur verið sett aðsóknarmet á Þingvöllum, en 1,3 milljónir sóttu þjóðgarðinn á árinu 2018 samkvæmt tölum úr talningarvél í Almannagjá. Það samsvarar um 3.600 gestum á hverjum degi ársins að meðaltali. „Öll síðustu ár á Þingvöllum hafa verið metár ef svo má segja. Hvert árið toppað það fyrra á undan,“ segir Einar Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður í samtali við mbl.is.

Í Morgunblaðinu 6. ágúst 2009 kom fram að rétt rúmlega 300 þúsund einstaklingar myndu skoða Þingvelli það ár.

Fæstir komu í janúar 2018 eða 63 þúsund, en flestir í ágúst þegar 187 þúsund gestir sóttu þingvelli sem eru rúmlega sex þúsund gestir á dag að meðaltali. Þá komu um 76 þúsund í desember 2018 sem er 17% meira en á sama tíma 2017.

„Almennt má segja að nokkuð ágætlega hafi gengið að taka á móti þessum fjölda. Við erum vel mönnuð og höfum náð að vaxa með fjölgun ferðamanna. En eins og sést á tölum er oft þröngt á þingi,“ segir Einar.

Hann segir að hægt hafi nokkuð á fjölgun gesta sem hefur skapað bætt andrými við uppbyggingu á svæðinu og til þess að sinna þeirri starfsemi sem er á svæðinu þrátt fyrir mikið álag.

„Við höfum verið í miklum framkvæmdum á árinu bæði með nýja gestastofu og bílastæði. Það stendur til að taka bílastæðin í notkun á næstu viku en einhver lítils háttar lokafrágangur hefur tafist. Þegar þau komast í gagnið verður nokkuð skýrara umferðarflæði á Hakinu,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert