Gjaldtaka hafin í Vaðlaheiðargöngum

Gjaldtaka í Vaðlaheiðargöngum hófst formlega í dag.
Gjaldtaka í Vaðlaheiðargöngum hófst formlega í dag. mbl.is/Þorgeir

Gjaldtaka í Vaðlaheiðargöngum hófst í dag. Göngin voru opnuð fyrir umferð 21. desember og hafa ökumenn getað ekið gjaldfrjálst í gegnum göngin en þurfa hér eftir að greiða á bilinu 700 til 6.000 krónur fyrir ferðina, en verðið fer eftir gerð ökutækisins og greiðslumáta.

Fullt veggjald fyrir fólksbíl er 1.500 krónur og 6.000 krónur fyrir flutningabíla og rútur. Hægt er að kaupa tíu, 40 eða 100 ferðir í einu og þannig lækkar gjaldið á fólksbíla niður í 1.250, 900 eða 700 krónur.

Hægt er að greiða fyrir ferðirnar á þrenns konar veg. Í fyrsta lagi með því að skrá bílnúmer og greiðslukort svo hægt sé að innheimta fyrir hverja ferð. Í öðru lagi með því að greiða fyrirframákveðið margar ferðir og í þriðjalagi með því að greiða innan þriggja klukkustunda eftir að hafa farið í gegnum göngin eða fá senda rukkun. Þá hækkar gjaldið hins vegar um þúsund krónur.

Nánari upplýsingar um gjaldtökuna má finna í myndskeiðinu hér að neðan og á sérstakri síðu um gjaldtöku í Vaðlaheiðargöngum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert