Ultima Thule gæti upplýst um tilurð lífs

Lögun Ulthima Thule sést í bakgrunni, á blaðamannafundi starfsteymis NASA.
Lögun Ulthima Thule sést í bakgrunni, á blaðamannafundi starfsteymis NASA. AFP

Ulthima Thule gæti varpað ljósi á vísbendingar um tilurð lífs á Jörðinni, að sögn Sævars Helga Bragasonar, sem er einnig þekktur undir nafninu Stjörnu-Sævar. 

Nýlega var staðfest að geim­farið New Horizons hafi flogið fram ­hjá fjar­læg­asta stað sól­kerf­is­ins, Ultima Thule, í um 6,4 millj­arða kíló­metra fjarlægð frá jörðu. Myndir af fyrirbærinu sýna lögun þess, sem minnir á keilu eða hnetu, en næstu myndir eru ekki væntanlegar fyrr en í febrúar, að sögn Sævars.

„Fyrirbærið tengist uppruna lífsins vegna þess að það inniheldur ís í miklu magni. Þegar sólkerfið okkar var að fæðast rigndi sams konar hnöttum yfir jörðina og það gæti því verið að tilurð lífsins sé að hluta til að þakka að við fengum slíka hnetti yfir jörðina fyrir 4,5 milljörðum ára,“ segir Sævar.

Á mynd tekinni af New Horizons-geimfarinu sést lögun Ultima Thule. …
Á mynd tekinni af New Horizons-geimfarinu sést lögun Ultima Thule. Fleiri myndir eru væntanlegar í febrúar. Ljósmynd/Wikipedia.org

Eins og sést á myndinni minnir fyrirbærið á hnetur eða keilu en Sævar segir skýringuna á því geta verið árekstur tveggja hnatta. Fyrirbærið er í 6,5 milljarða kílómetra fjarlægð frá jörðinni og er jafnframt fjarlægasti hnöttur sem geimfar hefur heimsótt til þessa. Hluti af verkefni New Horizons var að heimsækja Plútó en nú heldur geimfarið áfram í Kuipersbeltið og rannsakar svokölluð útstirni, sem eru handan við braut Neptúnusar.

Sævar Helgi Bragason.
Sævar Helgi Bragason. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta tiltekna útstirni er ekki stórt, álíka stórt og Mýrdalsjökull. Framhjáhlaupið er eins og að taka mynd af Mýrdalsjökli frá München á sama tíma og maður flýgur fram hjá því á 14 km/sek., sem er mjög hratt. Nú bíðum við eftir enn þá betri myndum og enn betri gögnum og fyrstu myndirnar lofa mjög góðu,“ segir Sævar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert