Blikur á lofti í veðrinu

Útlit er fyrir rigningu og kólnandi veður næstu daga. Búast …
Útlit er fyrir rigningu og kólnandi veður næstu daga. Búast má við éljum eða snjókomu á Vesturlandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óvenjumilt hefur verið í veðri síðustu daga miðað við árstíma en á morgun eru blikur á lofti, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Í dag verður áfram suðlæg átt og rigning um landið sunnan- og vestanvert en einna hvassast um miðbik Norðurlands. Útlit er fyrir að snúist í allhvassa vestlæga átt síðdegis með kólnandi veðri og éljum eða snjókomu á Vesturlandi. Hiti verður á bilinu 4 til 12 stig, hlýjast fyrir norðan. 

Á sunnudaginn heldur éljagangurinn áfram í fyrstu en útlit er fyrir að dragi úr vindi og úrkomu þegar líður á daginn og seint um kvöldið snýst líklega í austlæga átt. Útlit er því fyr­ir ágætt brennu­veður síðdeg­is á sunnu­dag, á þrett­ánd­an­um, en ekki þarf þó mikið að breyt­ast í kort­un­um til þess að kom­in verði austanátt með snjó­komu eða rign­ingu.

Veðurhorfur næstu daga:

Á laugardag:
Sunnan 10-15 m/s, víða rigning og hiti 3 til 8 stig. Gengur í vestan 13-18 síðdegis með snjókomu eða éljum og kólnar. Úrkomulítið NA-til. Hiti nálægt frostmarki um kvöldið.

Á sunnudag:
Allhvöss eða hvöss suðvestanátt og él, hvassast NV-til, en þurrt á austanverðu landinu. Hægari undir kvöld. Hiti víða 0 til 4 stig.

Á mánudag:
Vaxandi norðaustlæg átt með snjókomu fyrir norðan, en rigningu eða slyddu sunnan heiða í fyrstu. Kólnandi veður.

Á þriðjudag:
Hæg breytileg átt í fyrstu, víða bjart og frost um allt land. Vaxandi suðlæg átt þegar líður á daginn, þykknar upp og hlýnar.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir hlýja suðvestanátt með rigningu um landið S- og V-vert, en þurrt eystra.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert