Deila um jarðrask vegna ljósleiðara

Miklar skemmdir eru á jörð Eyþórs eftir lagningu ljósleiðara.
Miklar skemmdir eru á jörð Eyþórs eftir lagningu ljósleiðara. Ljósmynd/Aðsend

Eyþór Eyjólfsson, bóndi á Bakka innst í Ólafsfirði, hefur höfðað mál gegn verktakafyrirtæki sem lagði ljósleiðara á landi hans og segir hann mikið jarðrask hafa orðið af lögninni sem hafi farið verstu leið um landið. Verktakafyrirtækið segir misskilning hafi orðið til þess að farin var umrædd leið.

Eyþór segir við mbl.is að hann hafi samþykkt framkvæmdirnar og greiðir hann mánaðarlegt gjald fyrir þær en segist ekki hafa búist við því að fjórhjólaför og skemmdir myndu setja svip sinn á landið eftir á.

Honum var boðið hálft kíló af grasfræjum eða niðurgreiðslu framkvæmdanna, um 250 þúsund, í miskabætur, en hann segir vinnuflokkinn sem framkvæmdi verkið hafa farið lengstu og erfiðustu leiðina.  

„Mér sárnaði þetta gífurlega og það sem var verst í þessu er að ég vissi ekki einu sinni af þessu. Þeir báðu mig ekki um leyfi fyrir því að gera þetta á þennan hátt og þeir spurðu mig einskis.

Þegar ég talaði við verkstjórann eftir að þetta var gert kom hann af fjöllum og bjóst ekki við þessu. Þannig hann bauðst til þess að gefa mér hálft kíló af grasfræjum til þess að sá í þetta,“ segir Eyþór.

Ljósmynd/Aðsend

Í febrúar gerði Eyþór samning við fyrirtækið Tengi hf. um að setja upp ljósleiðara á bænum en samningurinn fólst í því að ljósleiðari yrði lagður upp að bænum og meðfram heimreiðinni, sem er um kílómetri á lengd, og reynt verði að valda sem minnstu jarðraski. Seinna, í júlímánuði var ljósleiðarinn lagður yfir land Eyþórs fyrir heimili hans, Bakka, en einnig fyrir bæinn Hreppsendaá, sem er í um 3 kílómetra fjarlægð frá bænum að sögn Eyþórs. Ljósleiðarinn að Hreppsendaá var lagður yfir land Eyþórs og olli jarðraskiz

„Þegar ég geng þangað niður eftir sé ég að þeir fóru lengstu og líklegast erfiðustu leiðina til að leggja þennan örmjóa streng. Ég spurði hvað þeim gengur til að fara þessa leið og þá var mér sagt að gröfumaðurinn hafi ákveðið að fara þessa leið.“

Misskilningur orsakaði jarðraskið

Í samtali við mbl.is segir Gunnar Björn Þórhallson, framkvæmdastjóri Tengir, að misskilningur milli verkstjóra og vinnuflokksins hafi orsakað jarðraskið.

Þá hafi vinnuflokkurinn mætt á svæðið og ætlað að vinna verkið eftir óskum Eyþórs en þegar á svæðið var komið hafi bóndi verið að slá túnið og beðið vinnuflokkinn að plægja ekki svæðið þar sem hann var. Vinnuflokkurinn hafi þá fært plæginguna til hliðar í góðri trú en svo hafi komið í ljós að sá sem sló túnin hafi ekki verið landeigandinn.

Ljósmynd/Aðsend

„Landeigandinn sagði að þessum bónda kæmi ekki við að lögnin ætti að vera, þó hún væri í gegnum mitt túnið hjá honum, því landeigandinn átti túnið en ekki bóndinn sem var að slá það,“ segir Gunnar.

Eyþór hefur leitað til lögreglu vegna skemmdana og segir að fleiri séu ósáttir við hvernig staðið er að málum þegar slíkar framkvæmdir eru á löndum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert