Stöðug aukning í sjúkraflugi

Leifur segir að dæmi séu um að Mýflug sinni sex …
Leifur segir að dæmi séu um að Mýflug sinni sex eða sjö sjúkraflutningum á dag. mbl.is/RAX

Sjúkraflugvélar Mýflugs fóru í 806 útköll á síðasta ári og fluttu alls 882 sjúklinga. Þetta er aukning fá árinu 2017 en þá voru sjúkraflugin 796. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Mýflugi.

Árið 2016 voru sjúkraflug félagsins 670 og árið 2015 flaug Mýflug 599 flug. Stöðugur vöxtur hefur verið í fjölda sjúkrafluga eins og tölurnar sýna og er nú svo komið að þörf er á að hafa tvær sjúkraflugvélar til taks til að anna eftirspurninni.

„Við erum búnir að vera með tvær vélar til taks alltaf, síðasta árið,“ segir Leifur Hallgrímsson framkvæmdastjóri Mýflugs í samtali við mbl.is, en í hverju sjúkraflugi er sjúkraflutningamaður frá Slökkviliði Akureyrar og sérhæfður læknir frá Sjúkrahúsinu á Akureyri er einnig með í för þegar um er að ræða alvarlega veika sjúklinga eða sjúklinga sem lent hafa í slysum.

Leifur segir að dæmi séu um að Mýflug sinni sex eða sjö sjúkraflutningum á dag. Í einstaka tilfellum kemur fyrir að sjúklingar þurfi að bíða aðeins, „en sem betur fer hefur ekki verið mjög mikið um það“ að sögn Leifs.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert