Rektor tekur vel í tillögur Áslaugar

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að sér lítist …
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að sér lítist almennt vel á fyrirhugað frumvarp Áslaugar Örnu. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Ef fólk hefur þann bakgrunn sem það þarf þá ætti það að vera fullnægjandi,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Honum líst almennt vel á fyrirætlað frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um að rýmka heimild háskólanna til að taka inn nemendur án eiginlegs stúdentsprófs.

Nú eru í gildi lög um háskóla sem kveða á um að nemendur sem hefji nám hafi lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi en Áslaug kveðst í forsíðuviðtali í Fréttablaðinu í dag hafa í bígerð frumvarp sem gerði háskólum kleift að taka inn nemendur og miða þá við annars konar þekkingu og reynslu umsækjenda, eins og úr atvinnulífinu.

Að sögn Jóns Atla kom Áslaug Arna að máli við hann áður en hún lagði þetta fram og kynnti tillögurnar. „Það er lykilatriði að háskólastofnanir séu tilbúnar að vera í sífelldri vinnu með inntökuskilyrðin,“ segir Jón Atli. Hann segir að ef þetta frumvarp yrði að lögum gæfi það nauðsynlegt færi á enn frekari endurskoðun á inntökuskilyrðum í háskólann.

Hann segir jafnframt verðuga spurningu hvort þetta komi til þess að rýra stúdentsprófið gildi. Svo sé þó ekki, segir hann. „Það þarf þó auðvitað að hafa í huga að umsækjendur standist raunverulega kröfurnar sem háskólanámið gerir og að nemendur geti yfir höfuð tekist á við háskólanám,“ segir hann. Til þess sé auðvitað mikilvægt að hafa breiðan fræðilegan grunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert