Segir forsendurnar brostnar

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég stend við það sem ég sagði áður, að ég mun stíga út úr hópnum þar sem mér finnst forsendur fyrir trúverðugri vinnu brostnar,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Hún hefur ákveðið að stíga út úr þriggja manna hópi sem á að rýna í niðurstöður innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið svonefnda í ljósi þess að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ákvað að verða ekki við beiðni hennar um að víkja úr hópnum.

„Mér finnst ekki gott að taka þátt í einhverju sem ég hef litla trú á að verði gert af því hlutleysi sem ætlast er til,“ segir hún en bætir við að hún muni áfram hafa aðkomu að úrvinnslu skýrslunnar í borgarráði og borgarstjórn eins og aðrir.

Aðspurð kveðst hún ekki vita hver kemur í hennar stað í hópinn og segist hún ekki sjá fyrir sér að neinn úr minnihlutanum taki þátt í vinnunni í ljósi ákvörðunar Dags. Hún segir ákvörðunina ekki hafa komið sér á óvart en telur óheppilegt að hann sitji í nefndinni, eins og hún hefur áður greint frá.

„Í þágu þess að við getum unnið þetta mál áfram og borgarbúar geti treyst því að þetta verði gert af hlutleysi og fagmennsku þá væri betra að hann myndi stíga úr þessum hópi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert