Ernir fær að framkvæma viðhald

Dornier-þota Ernis á Reykjavíkurflugvelli í dag.
Dornier-þota Ernis á Reykjavíkurflugvelli í dag. mbl.is/Eggert

Isavia hefur fallist á ósk flugfélagsins Ernis um að fá að framkvæma viðhald á flugvélinni enda hefur það ekki nein áhrif á kyrrsetningu vélarinnar, sem er enn í gildi.

„Enginn stoppaður nema við“

Hörður Guðmundsson, eigandi Ernis, segist hafa fengið flugvélina til baka en hún hafði verið í skoðun þegar hún var kyrrsett. Ekki stóð til að fljúga henni strax, enda voru erlendir flugmenn sem eru þjálfunarflugstjórar á vélinni, staddir erlendis. Erlendir tæknimenn höfðu verið að þjálfa starfsfólk Ernis í meðferð vélarinnar og búið var að draga hana að flugskýli þegar hún var kyrrsett.

„Það er eins og það hafi verið setið fyrir henni. Svona er bara lífið, það er ekkert við því að gera. Við viðurkennum að við erum í skuld en við erum ekki einir um það,“ segir Hörður en skuldin nemur 98 milljónum króna. Slíkt sé fljótt að safnast upp þegar gjöldin nema mörg hundruð þúsundum króna á degi hverjum.

„Kannski er þetta víti til varnaðar öðrum, ég veit það ekki en mig grunar það. Það hefur enginn verið stoppaður nema við en ég veit að það eru margir sem skulda.“

Hörður Guðmundsson á Reykjavíkurflugvelli í dag.
Hörður Guðmundsson á Reykjavíkurflugvelli í dag. mbl.is/Eggert

Erfiðleikarnir tímabundnir

Aðspurður segist hann ekki vera reiður út í Isavia vegna kyrrsetningarinnar. Ernir sé elsta flugfélag á Íslandi sem hafi alltaf greitt sína reikninga og skuldir bæði til Isavia og forvera þess. Þannig muni það áfram vera. „Þetta eru tímabundnir erfiðleikar með lausafé eins og staðan er núna,“ segir hann og nefnir að það hafi reynst flugfélaginu dýrt að geta ekki innleitt nýja flugvélategund sem átti að taka í notkun síðasta sumar. Það verður gert í vor í staðinn.

„Þrátt fyrir þetta upphlaup sem kom, má segja með stórum stöfum að það er engin WOW fyrir dyrum,“ segir Hörður.

Eins og flugskóli 

Ernir heldur uppi áætlunarflugi innanlands og að sögn Harðar hefur kostnaðurinn vaxið meira en sem nemur möguleikum á hækkun fargjalda. Hann segir að sjálfsagt þurfi að grípa til einhverra ráðstafana vegna stöðunnar sem er uppi. „Það er mjög dýrt að þjálfa mannskap. Við höfum misst töluvert af flugfólkinu okkar, bæði flugvirkjum og flugmönnum, til WOW air og Icelandair. Við höfum verið að reka þetta stundum eins og flugskóla,“ segir hann og á við að fólk hafi fengið réttindi hjá þeim en stoppað kannski stutt við. Nokkrar milljónir króna kosti að þjálfa hvern flugmann og ef hann fer annað fljótlega sitji flugfélagið uppi með þjálfunarkostnað sem skili sér ekki til baka.

Hörður nefnir að öllum hafi verið gefinn kostur á að halda starfinu sínu í vetur og hefur flugfélagið því getað haldið starfsfólki sínu fyrir næsta sumar. Það hafi reynst frekar dýrt að halda því í vinnu yfir vetrarmánuðina.  

Um 70 manns starfa hjá Erni og eru flugvélarnar átta talsins, þar af þrjár minni sem eru notaðar í sérverkefni. Á meðal þeirra verkefna eru sjúkraflug til útlanda sem oft tengjast líffæraskiptum. 

Uppfært kl. 16.49:

Kyrrsetningin á flugvél flugfélagsins Ernis hefur ekki verið felld úr gildi eins og mbl.is hafði áður greint frá og hefur fréttin því verið uppfærð. Isavia féllst hins vegar á ósk flugfélagsins um að fá að framkvæma viðhald á flugvélinni enda hefur það ekki nein áhrif á kyrrsetningu vélarinnar. Þetta segir upplýsingafulltrúi Isavia.

Samkomulagið sem Isavia og Ernir hafa náð snerist um að leyfa flugfélaginu að færa vélina inn í flugskýlið. Þau hafa aftur á móti ekki náð samkomulagi um kyrrsetninguna.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert