Hægt að byggja þétt og vel á reitnum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Guðjón Auðunsson forstjóri Reita á …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Guðjón Auðunsson forstjóri Reita á þaki Orkuhússins fyrir hádegi. mbl.is/Eggert

„Margir kalla þetta Orkuhússlóðina, en þetta er auðvitað stærra. Þetta er ekki bara Suðurlandsbraut 34, heldur er þetta líka Ármúli 31. Þegar þú dregur hring utan um lóðina er hún um það bil 26.000 fermetrar og samkvæmt okkar fyrstu skoðunum getur þú komið fyrir hérna 45.000 fermetrum af byggingarmagni,“ segir Guðjón Auðunsson forstjóri Reita í samtali við mbl.is.

Í morgun undirritaði Guðjón viljayfirlýsingu við Reykjavíkurborg fyrir hönd Reita, um stórfellda uppbyggingu á lóðinni, en þar er gert ráð fyrir allt að 500 íbúðum og atvinnustarfsemi sömuleiðis. Lágreist atvinnuhúsnæði neðst í Ármúlanum verður rifið til þess að rýma fyrir blandaðri byggð, sem gæti orðið að miklu leyti 5-6 hæða hús miðað við áætlað byggingamagn.

„Það segir sig sjálft að á 26.000 fermetra lóð og þú ætlar að byggja 45.000 fermetra, með götum og görðum á milli, þá ertu kominn með 5-6 hæða byggingar, að miklu leyti. Fyrirmyndin er bara hérna,“ segir Guðjón og vísar til Orkuhússins. Bláu húsin á lóðinni munu víkja og ljóst að götumynd Ármúlans verður allt önnur.

„Þarna eru náttúrulega leigutakar í dag, sem hafa sína leigusamninga og við heiðrum þá,“ segir Guðjón, sem segir Reiti og Reykjavíkurborg vera á leiðinni í „nokkuð langt ferðalag“ varðandi þessa uppbyggingu, sem ráðgert er að geti hafist um tveimur árum eftir að deiliskipulagsvinnu lýkur, samkvæmt fréttatilkynningu sem borgin lét frá sér í morgun.

Reiturinn sem um ræðir er alls 26.000 fermetrar. Gert er …
Reiturinn sem um ræðir er alls 26.000 fermetrar. Gert er ráð fyrir 45.000 fermetra byggingamagni. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

„Einhverjir leigusamningarnir eru lengri en þetta [2-3 ár], svo við þurfum hugsanlega að vinna hérna með okkar viðskiptavinum í því hvernig við förum með það eða aðlaga byggingaframkvæmdir, af því að svæðið er svo stórt, að því hvenær samningar losna,“ segir Guðjón.

Þétt og gott borgarumhverfi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir í samtali við blaðamann að það verði útfært í deiliskipulagi hversu há hús muni rísa á lóðinni, en þrjár arkitektastofur munu vinna að hugmyndum um reitinn, samkvæmt Guðjóni. Ekki var hægt að greina frá því hvaða arkitektar taka þátt í hugmyndavinnunni að svo stöddu.

„Við sjáum ekki fyrir okkur að þetta verði einhver háhýsabyggð heldur bara þétt og gott borgarumhverfi og það tekur auðvitað bara mið af aðstæðum hér, hvernig það verður úfært,“ segir Dagur. Hann bætir við að kjarni málsins sé sá með þessari viljayfirlýsingu sé verið að gefa tóninn til framtíðar.

Hluti af þessu samkomulagi er að gera ráð fyrir borgarlínustöð hérna fyrir utan og þess vegna getum við byggt mjög þétt og vel á þessum reit,“ segir Dagur.

Hann bætir því við að aðstæður til þess að fjölga íbúum og íbúðum á þessu svæði séu frábærar, stutt sé í Laugardalinn sem borgaryfirvöld ætli að „standa vörð um“ sem útivistarsvæði og ekki sé heldur svo langt í Elliðaárdalinn.

Guðjón og Dagur undirrita viljayfirlýsinguna í morgun.
Guðjón og Dagur undirrita viljayfirlýsinguna í morgun. mbl.is/Eggert

Dagur segir að verið sér að rýna skólamálin með tilliti til uppbyggingar á þessu svæði, en segir einnig að það eigi eftir að koma í ljós hvernig íbúasamsetning á þessum nýja þéttingarreit verði og gefur í skyn að þar muni ef til vill verða mikið um eldra fólk, sem nýti sér ekki þjónustu skólanna.

„Inni í Vogabyggð er ráðgert að rísi nýr skóli, það getur kannski létt aðeins á skólahverfum hér í kring, en það fer líka svolítið eftir því hvaða aldurshópar flytja hvert. Í sumum tilvikum höfum við tekið eftir því að inn á þéttingarreiti flytur kannski eldra fólk sem er að minnka við sig en þá kannski losna íbúðir annars staðar.

Núna gefum við okkur mánuði í að deiliskipuleggja, það er talað um að framkvæmdir fari af stað innan tveggja ára frá þeim tíma og á meðan munum við rýna, ekki bara skólamálin heldur alla þjónustu, sem þarf að tryggja í tengslum við þessari nýju uppbyggingu, en það er ekki nýtt fyrir okkur, það er hluti af aðalskipulaginu,“ segir Dagur.

Nóg í gangi hjá Reitum

Reitir eru eitt stærsta fasteignafélag landsins og þetta verkefni bætist við ýmis önnur sem félagið stendur að. Það stærsta er stórfelld uppbygging í Kringlunni, þar sem gert hefur verið ráð fyrir um 400-600 íbúðum og atvinnuhúsnæði að auki.

„Það hefur aðeins dregist bara út af skipulagsmálum,“ segir Guðjón, sem segir það vera flókið verkefni og að það verði ekki einfaldara þegar „menn tala um að setja Miklubraut í stokk“ og um það hvar borgarlínan eigi að liggja.

„Þar eru fleiri hagsmunaaðilar, en við bara bíðum eftir því að það raungerist, við erum ekkert að flýta okkur, en það er bara í ferli. Það verkefni er núna hluti af aðalskipulagsbreytingum hjá Reykjavíkurborg og ég á von að því að það klárist núna í vor og þegar aðalskipulagsbreytingin er komin í gegn þá getum við farið að deiliskipuleggja,“ segir Guðjón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert