Svöruðu 500 þúsund símtölum

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/​Hari

Starfsmenn þjónustudeildar rekstrarsviðs Landspítalans fóru í um 18.200 ferðir milli Hringbrautar og Fossvogs á síðasta ári, fluttu um 44 þúsund sjúklinga og svöruðu um 500 þúsund símtölum í þjónustuveri.

Þetta kemur fram í uppgjöri deildarinnar fyrir síðasta ár, að því er Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, greinir frá í vikulegum forstjórapistli sínum.

Þar kemur fram að þeir hafi einnig flutt um 23.500 svokölluð akútsýni, flutt um 25 þúsund farþega, farið í um 6.300 ferðir með lyf og lyfjablöndur, þrifið og búið um 8.500 rúm í rúmaþjónustu og spjallað 1.500 sinnum við viðskiptavini í gegnum netspjall í þjónustuveri.

Páll talar í pistli sínum um heimsókn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á Landspítalann í gær og segir að hún hafi verið ánægjuleg. „Markmið okkar með þessari yfirferð var að gefa ráðherrunum innsýn í þau gríðarstóru og fjölbreyttu verkefni sem við hér á Landspítala fáumst við. Staðreyndin er sú að jafnvel þó að um okkur blási á stundum er enginn bet[ur] til þess fallinn að sinna flóknustu verkum heilbrigðisþjónustunnar en einmitt við á Landspítala,“ skrifar hann.

Páll bætir við að 70 ára afmæli kvennadeildar Landspítalans hafi verið fagnað í dag. Starfinu hafi fleygt fram undanfarin ár með aukinni tækni- og þekkingarþróun. „Einn helsti mælikvarði á gæði heilbrigðisþjónustu er burðarmálsdauði og þar er Ísland í allra fremstu röð. Svo var ekki alltaf en þetta getum við þakkað öflugri mæðravernd og faglegu starfi heilbrigðisstétta út um allt land, með algerri kjölfestu í kvennadeild Landspítala. Innilega til hamingju landsmenn allir!“ skrifar forstjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert