Landsréttur hafnaði kröfum þingmanna

Kröfum þingmanna Miðflokksins um gagnaöflun og vitnaleiðslur vegna Klausturmálsins var …
Kröfum þingmanna Miðflokksins um gagnaöflun og vitnaleiðslur vegna Klausturmálsins var einnig hafnað í Landsrétti. mbl.is/Árni Sæberg

Landsréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur varðandi kröfu fjögurra þingmanna Miðflokksins um gagnaöflun og vitnaleiðslur fyrir héraðsdómi vegna Klausturmálsins. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Báru Halldórsdóttur, staðfestir þetta í samtali við mbl.is, en Stundin greindi fyrst frá.

„Það kom úrskurður síðla í dag þar sem héraðsúrskurðurinn var staðfestur. Það má segja að það sé að mestu leyti á sömu forsendum og síðan var lögð áhersla á það að þessir gagnaðilar Báru uppfylltu ekki lagaskilyrði til að fá að gera það sem þeir vildu fyrir héraðsdómi,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.

Þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir lögðu fram kröfurnar vegna fyrirhugaðrar málsóknar á hendur Báru, sem hljóðritaði samskipti þeirra og tveggja þingmanna til viðbótar á veitingahúsinu Klaustri 20. nóvember sl.

Samkvæmt frétt Stundarinnar um úrskurð dagsins fellur málskostnaðurinn á þingmennina fjóra, en samkvæmt því sem fram kemur á vef Fréttablaðsins er sá kostnaður 300.000 kr.

Bára Halldórsdóttir ásamt lögmönnum sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Bára Halldórsdóttir ásamt lögmönnum sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert