Var ekki beittur þrýstingi

Guðlaugur Þór Þórðarson á fundinum í morgun.
Guðlaugur Þór Þórðarson á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hann hefði aldrei lofað því að Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, yrði skipaður sendiherra, og að það stæði ekki til að skipa hann í stöðuna.

Aðspurður neitaði hann því að ýjað hafi verið að því við hann, í tengslum við fyrri embættisfærslur, að hann stæði í skuld við einhvern eða bæri að gjalda einhverjum greiða.

Guðlaugur Þór kvaðst kannast við að hafa setið fund í Alþingishúsinu síðasta haust með Bjarna Benediktssyni, fjármála- og utanríkisráðherra, og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, og sagði hann Sigmund Davíð hafa farið yfir áhuga Gunnars Braga á að vera skipaður sendiherra. Sagðist Guðlaugur Þór ekki hafa verið beittur þrýstingi af þeim sem sátu fundinn varðandi fyrirgreiðslu eða eitthvað í þeim dúr.

Ráðherra kannaðist ekki við það að Bjarni Benediktsson hafi sagt á fundinum: „Nú leysið þið þetta.“ Sagðist hann hafa átt samskipti við Bjarna í áratugi og að hann hafi aldrei skipað honum að gera nokkurn skapaðan hlut.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur var spurður hvort hann hafi skráð bæði óformleg og formleg samtöl um mögulegar skipanir sendiherra, eins og reglur kveði á um. Hann sagðist að það yrði „nokkuð stór bók“ ef hann ætlaði að skrá öll þau samtöl þar sem menn ræði við hann um sendiherraskipan.

Hann tók fram að hann hafi ekki skipað sendiherra síðan hann tók við embætti og að það standi ekki til. Þvert á móti hafi sendiherrum fækkað úr 40 í 37. Guðlaugur hvatti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fara betur yfir hvernig ætti að standa að slíkum skráningum. Þær myndu fela í sér grundvallarbreytingar á samskiptum ráðherra við þingmenn og aðra aðila.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagðist ætla að kalla eftir upplýsingum um allt sem hefur verið skrásett varðandi skipan sendiherra.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór var spurður út í boðað frumvarp um breytingar á lögum um skipan sendiherra og hvort til greina kæmi að starfið yrði í framtíðinni auglýst, „þannig að hæfasta fólkið hafi tækifæri til að koma til álita“.

Ráðherra sagði frumvarpið ekki hafa verið lagt fram og drög hafi ekki verið gerð. Hugsa þurfi til þess sem aðrar þjóðir hafi gert og engin þjóð, að honum vitandi, hafi auglýst slíkar stöður. Hann talaði um mikilvægi þess að hafa sveigjanleika í opinbera kerfinu og að æviráðning sendiherra væri ekki ákjósanleg. Guðlaugur Þór bætti við að í utanríkisþjónustunni væri mikilvægt að fleiri hafi tækifæri til að sinna forstöðu á sendiskrifstofum.

Guðlaugur sagði að 37 sendiherrar væru starfandi núna en að einn væri í leyfi. Fjórir þessara sendiherra koma annars staðar frá en úr Stjórnarráðinu.

Varðandi kynjahlutföll sagði hann 25 karla vera sendiherra en 12 konur. Spurður hvort hann hafi áform um að jafna kynjahlutföll í framtíðinni sagði hann sjálfsagt og eðlilegt að ræða þau mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert