Einhverjir með eymsli en öðrum brugðið

Á fjórða tug farþega í rútunum tveimur kom í fjöldahjálparmiðstöðina …
Á fjórða tug farþega í rútunum tveimur kom í fjöldahjálparmiðstöðina í Varmárskóla. mbl.is/Eggert

Aðgerðum viðbragðsaðila vegna rútuslysanna á Kjalarnesi er lokið og síðustu farþegarnir eru nú farnir úr fjöldahjálparmiðstöð sem komið var upp í Varmárskóla í Mosfellsbæ. Fékk fólkið þar teppi og heitt te eða kaffi auk þess sem viðbragðssveit Landspítalans kom til að kanna hvort einhverjir þyrftu frekari aðstoð.

Valdís Steinarrsdóttir, neyðarvarnafulltrúi hjá Rauða krossi Íslands, var í Varmárskóla í kvöld og segir í samtali við mbl.is að allt hafi gengið vel í kvöld. Góð samskipti hafi verið milli viðbragðsaðila og allir brugðist fljótt við. Hún segir ástandið á fólkinu sem þangað leitaði hafa verið gott. Einhverjir hafi verið með eymsli og öðrum hafi verið brugðið. Fólkið var á öllum aldri og þar af voru tvö börn á aldrinum 8-9 ára.

Frá Varmárskóla í kvöld.
Frá Varmárskóla í kvöld. mbl.is/Eggert

Jón Brynjar Birgisson, sem er yfir neyðarvörnum hjá Rauða krossinum og var í aðgerðarstjórn í kvöld, segir að langflestir þeirra sem leituðu í fjöldahjálparmiðstöðina hafi getað snúið aftur beint á það hótel sem þeir gistu á. Fólki hafi verið bent á að það gæti leitað sér aðstoðar á heilsugæslustöðvum á morgun ef þörf krefur.

mbl.is/Eggert

Fjórir fóru á Landspítalann í kjölfar slyssins, en þeir voru með minni háttar áverka.

Aðgerðastjórn er nú að skala niður viðbragð sitt og sömuleiðis er verið að ganga frá í fjöldahjálparmiðstöðinni.

mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert