Meðalhraði mældur í stað punkthraða

Hraðamyndavélar skrá hvenær bifreið er ekið inn í Norðfjarðargöng og …
Hraðamyndavélar skrá hvenær bifreið er ekið inn í Norðfjarðargöng og hvenær út úr þeim og reikna síðan meðalhraða hennar í gegnum göngin. Ljósmynd/Vegagerðin

Hraðamyndavélar af nýrri kynslóð hafa verið settar upp við Norðfjarðargöng, en í stað þess að mæla hraða bifreiða á ákveðnum tímapunkti, svokallaðan punkthraða, líkt og hefðbundnar hraðamyndavélar reikna þær út meðalhraða á tiltekinni vegalengd.

Ljósmynd/Öryggismiðstöðin

Myndavél greinir þannig númer bifreiðar við annan enda Norðfjarðarganga og skráir klukkan hvað ekið var fram hjá henni. Önnur myndavél við hinn enda ganganna skráir síðan hvenær viðkomandi bifreið ekur út úr þeim.

Hafi verið ekið of hratt býður kerfið upp á að lögregla fái upplýsingar um málið og geti þá sent út sekt á eiganda umræddrar bifreiðar. Öryggismiðstöðin vinnur að uppsetningu búnaðarins fyrir Vegagerðina í kjölfar útboðs.

Til stendur að koma fyrir slíkum hraðamyndavélum víðar. Ekki síst við jarðgöng og á stöðum þar sem slys vegna hraðaksturs hafa verið tíð. Slíkar vélar hafa þegar verið teknar í notkun á milli Grindavíkur og Bláa lónsins.

Þá er beðið eftir að ríkislögreglustjóri samþykki formlega að hraðamyndavélar af þessari tegund verði notaðar við löggæslu samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert