Lækka kostnað með aukinni skilvirkni

Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, formaður átakshópsins, segir aukna skilvirkni og sveigjanleika …
Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, formaður átakshópsins, segir aukna skilvirkni og sveigjanleika mikilvæga þætti í að lækka byggingarkostnað og auka framboð af hagkvæmu húsnæði. mbl.is/​Hari

Tillögur átakshóps um aukið framboð af íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði miða meðal annars að því að auka samráð milli hagsmunaaðila, sveitarfélaga og ráðuneyta, segir Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, formaður hópsins, í samtali við mbl.is.

„Yfirsýnin þarf að vera betri,“ segir hún og bendir á að stjórnsýslan þarf að vera skilvirkari meðal annars í þeim tilgangi að draga úr kostnaði og byggingartíma.

Auka þarf sveigjanleika

Spurð um lið lóðarverðs í kostnaði við byggingu húsnæðis vísar Anna Guðmunda til þess að í tillögunum sé lagt til að sveitarfélögin og ríkinu verði veitt rýmri heimild til eftirgjafar ýmissa kostnaðarliða til óhagnaðardrifinna leigufélaga.

Um þær kvaðir sem liggja á byggingaraðila, eins og fjöldi bílastæða á smærri lóðum, segir hún vandamál hversu lengi er hægt að fá breytt slíkum ákvæðum í skipulagi sem veldur talsverðum kostnaði og tefur framkvæmdir.

„Eins og við erum að sjá hjá Bjargi tekur mjög langan tíma að fá þessu breytt. Við erum að miða að því að það verði aukinn sveigjanleiki í að fá skipulaginu breytt.“

Tillögur átakshópsins eru til þess fallnar að gefa færi á að byggja hagkvæmara húsnæði, hvetja til nýsköpunar og stytta þann tíma sem þarf til þess að breyta skipulagi, að sögn Önnu Guðmundu.

Borgarlínu hraðað

Meðal tillagna hópsins er að hraða framkvæmdum við borgarlínu og gefa út samgöngupassa fyrir námsmenn og þá sem eru tekjulægri og eignaminni til þess að stuðla að uppbyggingu á ódýrari svæðum.

Blaðamaður spyr hvort fyrirhugað innviðagjald á fasteignir í nærsvæði borgarlínunnar til þess að fjármagna uppbyggingu hennar muni ekki vinna gegn tillögum um lækkun lóðarverðs.

„Við gerum ráð fyrir að þetta komi allt til skoðunar nú þegar tillögurnar eru komnar fram og verða skoðaðar frekar í ráðuneytinu, með því markmiði að við séum ekki að leysa einn vanda með því að skapa annan,“ svarar Anna Guðmunda.

Ekki olíu á eldinn

Starf átakshópsins sneri fyrst og fremst að tekju- og eignaminni einstaklingum á húsnæðismarkaði, spurð um stöðu þeirra sem ekki falla í þann hóp en engu að síður komast ekki inn á húsnæðismarkað, segir hún annan starfshóp vinna að tillögum hvað þessa einstaklinga varðar.

„Það er annar starfshópur starfandi sem mun skila tillögum á næstu dögum sem fjalla um þessi mál. Við hittum þann hóp og ákváðum að fjalla ekki mikið um þessa einstaklinga,“ segir formaðurinn, en tekur jafnframt fram að tillögur átakshópsins um húsnæðisfélög miði meðal annars að því að félögin geti komið að úrræðum stjórnvalda.

„Við leggjum gríðarlega áherslu á það, þegar er farið í slíkar aðgerðir sem er eftirspurnarstuðningur, að framboð og eftirspurn nái jafnvægi, annað er bara olía á eldinn,“ útskýrir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert