Rafvæðing dómstóla til skoðunar

Mikið hagræði felst í rafvæðingu íslenska dómskerfisins að sögn lögmanns. …
Mikið hagræði felst í rafvæðingu íslenska dómskerfisins að sögn lögmanns. Málið er á vinnustigi að sögn aðstoðarmanns dómsmálaráðherra. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ómar R. Valdimarsson lögmaður segir miðlæga gagnagátt í dómsmálum geta straumlínulagað dómskerfið, flýtt málsmeðferð og sparað samfélaginu töluverða fjármuni. Nokkur umræða skapaðist í Facebook-hópnum „Lögfræðinördar“ í gær þar sem Ómar vakti máls á óhagræðinu sem fylgir núverandi fyrirkomulagi dómstóla.

Ómar R. Valdimarsson lögmaður.
Ómar R. Valdimarsson lögmaður. Ljósmynd/Gassi Ólafsson

„Ég fór í gær í fjórar fyrirtökur hjá þremur dómstólum. Dagurinn fór í þetta, kostnaður sem ekki fæst bættur alla jafna hjá dómstólum en reglur dómstóla segja akstur innan höfuðborgarsvæðisins ekki greiddan í opinberum málum sem hluti samgöngukostnaðar. Í gær var ég á leið úr Hafnarfirði í Reykjavík í 45 mínútur,“ segir Ómar í samtali við mbl.is. Í einni fyrirtökunni skilaði hann greinargerð skjólstæðings síns en annars var ekki gagnaframlagning. „Er ekki kominn tími til þess að kveðja þetta 19. aldar réttarfar?“ skrifaði hann á Facebook.

Meðal þeirra sem tjáðu sig í umræðunum var Einar Hannesson, aðstoðarmaður Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra. Einar benti á að rafrænar þinglýsingar væru orðnar að lögum og fyrsti áfangi þess verkefnis sé á áætlun núna í vor. Þá hafi verið til umræðu sem hluti af þeirri vinnu við rafvæðingu stjórnsýslunnar að nýta hugbúnaðargrunn til að koma dómskjölum til dómstóla með rafrænni undirritun.

Einar Hannesson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra.
Einar Hannesson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra. Ljósmynd/Aðsend

„Það er vinna almennt séð í því verkefni að koma upp kerfi sem flytur gögn innan réttarvörslukerfisins í heild sinni, það er umfangsmikið starf í gangi,“ segir Einar í samtali við mbl.is. „Því til viðbótar hefur komið fram fyrirspurn frá lögmönnum til að einfalda fyrirtöku dómsmála,“ segir Einar. Málið sé til skoðunar hjá vinnuhópi á vegum dómsmálaráðuneytisins og telur hann það bæði tæknilega og lögfræðilega gerlegt og samræmast áherslum ríkisstjórnarinnar um að auka veg rafrænnar stjórnsýslu til að einfalda borgurum lífið.

„Allir fagna þessu nema hugsanlega þeir sem eru enn að baxa með ritvélar,“ segir Ómar léttur við mbl.is en hann sér fyrir sér að þingfestingar, fyrirtökur og milliþinghöld geti farið fram á netinu í rafrænni gátt en að aðalmeðferð og skýrslutaka fari áfram fram fyrir dómi. „Þetta myndi spara öllum mikla vinnu, einfalda og straumlínulaga dómskerfið og mál yrðu rekin með meiri hraða en hefur verið hingað til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert