Skýringar á áverkum oft fáránlegar

Áverkar á börnum sem hafa orðið fyrir ofbeldi eru allt öðruvísi en þeir áverkar sem koma af slysförum segir Gestur Pálsson barnalæknir. Hann segir að oft séu skýringar á áverkum fáránlegar og læknar sem skoði börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi sjá að skýringin á ekki við.

Þetta kom fram í máli Gests í málstofu um ofbeldi á Læknadögum í morgun. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari, sem einnig var með erindi í málstofunni, hvatti lækna til þess að skrá nákvæmlega allt sem máli geti skipt þegar áverkar eru skoðaðir.

Hún tók sem dæmi héraðsdóm sem búið er að áfrýja en þar var dagmóðir dæmd fyrir ofbeldi gagnvart 20 mánaða gömlu barni. Upphaf málsins var að dagmóðir tilkynnti að barnið hefði fallið, án þess að hún hafi séð, úr barnastól og hlotið við það áverka á hálsi. Að sögn Kolbrúnar vaknaði strax grunur hjá lækni á bráðamóttöku um að ekki væri allt með felldu og hafði hann samband við lögreglu þar sem áverkar á barninu voru ekki í samræmi við frásögn dagmóður.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barnið var með mikla áverka á báðum kinnum og hálsi en enga kúlu eftir fallið, og var það mat réttarmeinafræðinga að sjá mætti fingraför í andliti barnsins þar sem áverkarnir voru. Var það samdóma álit tveggja sjálfstæðra réttarmeinafræðinga og læknis sem skoðaði barnið á bráðamóttöku að áverkar á barninu gætu ekki hafa orsakast af falli eins og dagmóðirin hafði lýst.

Þegar um lítil börn er að ræða skipta læknisfræðileg gögn svo miklu, að sögn Kolbrúnar, og hvatti hún lækna á bráðamóttöku til þess að taka upp svipað verklag og er á neyðarmóttöku kynferðisofbeldis. Slíkt geti komið að miklu gagni við rannsókn mála.

Alvarlegir höfuðáverkar eftir ofbeldi

Gestur segir að alvarlegustu áverkarnir hjá börnum séu á höfði og nefndi þar sem dæmi lítið barn sem kom með margbrotna höfuðkúpu og lést tólf tímum síðar á sjúkrahúsinu. „Þetta var auðvitað tilkynnt en við heyrðum aldrei hvað varð um það mál.“

Að hans sögn er í flestum tilvikum um eðlilegar skýringar að ræða þegar komið er með börn með áverka á bráðamóttöku, aðeins sé um slys að ræða. 

Eitt alvarlegasta tilvikið sem Gestur man eftir á 45 ára ferli sem barnalæknir voru áverkar sem móðir veitti syni sínum. Sá drengur þurfti að fara í fjölmargar aðgerðir á andliti vegna áverka og eins var hann með áverka eftir fjötra, hann var með mörg beinbrot og í einhverjum tilvikum voru brotin látin gróa sjálf.

Hræðileg bernska eyðilagði líf hans

Gestur Pálsson barnalæknir flutti fyrsta fyrirlesturinn í málstofunni á Læknadögum …
Gestur Pálsson barnalæknir flutti fyrsta fyrirlesturinn í málstofunni á Læknadögum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir nokkrum árum var þessi drengur, þá uppkominn, myrtur. Hann náði aldrei að fóta sig í lífinu og segist Gestur sannfærður um að þessi hræðilega bernska hafi eyðilagt líf hans.

Gestur tók dæmi af níu mánaða gamalli stúlku sem komið var með á Landspítalann með höfuðáverka. Hún var höfuðkúpubrotin og það voru engar skýringar á því, segir Gestur. Það var tilkynnt til barnaverndaryfirvalda en nokkrum mánuðum síðar var komið með barnið í lostástandi á spítalann og lést það skömmu síðar af völdum blæðinga og áverka í kviðarholi en meðal annars var lifur barnsins rifin.

Skólahjúkrunarfræðingur kom einni þrettán ára gamalli stúlku til bjargar með því að koma með hana á bráðamóttökuna vegna áverka sem hún var með á hálsi. Stúlkan hafði ekki kvartað neitt en var alltaf með trefil í skólanum. Í ljós kom að stjúpfaðir hennar hafi ítrekað beitt hana ofbeldi. Þarna var gripið inn og stúlkunni bjargað. Það eina sem hún hafði sér til sakar unnið var að hún fór í taugarnar á stjúpanum.

Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss.
Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss. Ljósmynd/Frikki

Hvernig líður barninu sem varð fyrir ofbeldinu?

Ólöf Ásta Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðingur og forstöðumaður Barnahúss, segir að margt hafi breyst til batnaðar hvað varðar þjónustu við börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi en áður hafi þau þurft að segja sögu sína ítrekað. „Hvernig haldið þið að fjögurra ára barni vegni í svona ferli? Barnið er löngu búið að gleyma hvað þeim var sagt eða hvað kom raunverulega fyrir þau,“ segir hún.

Þegar grunur kemur upp um ofbeldi tilkynnir starfsfólk Barnahúss það til barnaverndar líkt og lögbundið er. Hún segir að margir óttist að greina frá ofbeldi sem þá grunar að eigi sér stað en þá hafi hún fyrir reglu að snúa þessu við: Hvernig heldur þú að barninu líði sem verður fyrir ofbeldinu?

Hún segir að hjá Barnahúsi séu aðeins notaðar gagnreyndar aðferðir við viðtöl sem og meðferðir enda hafi komið upp tilvik þar sem börn séu notuð í forræðisdeilum og það komi í ljós í viðtalinu við barnið.

Í fyrra komu 128 börn í skýrslutöku hjá Barnahúsi en 117 árið á undan. Ólöf segist búast við að skýrslutökunum eigi enn eftir að fjölga.

Margrét Edda Örnólfsdóttir læknir.
Margrét Edda Örnólfsdóttir læknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfir 3.200 mál til kasta neyðarmóttökunnar

Margrét Edda Örnólfsdóttir, deildarlæknir á skurðsviði Landspítalans, segir að læknisskoðanir vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum séu vandasamar og tímalengd frá ofbeldi skipti þar miklu. Tilkynningum um slíkt ofbeldi hafi fjölgað en mikilvægt sé að hafa í huga að tilkynningaskyldan gangi framar öðru.  

Ósk Ingvarsdóttir, kvensjúkdómalæknir á neyðarmóttökunni, segir að frá stofnun hennar hafi yfir 3.200 mál komið til þeirra kasta og að 95% þeirra sem þangað leita séu stúlkur og konur. Meirihluti þeirra eru ungar konur, það er yngri en 25 ára og nokkuð stór hluti þeirra eru börn, það er yngri en 18 ára. Flestir koma þangað á mánudögum og um helgar og flestar þeirra hafa orðið fyrir ofbeldinu á heimilum, það er annaðhvort á heimili gerandans eða eigin heimili. Á heimilum þar sem fólki á að líða vel og það á vera öruggt, segir Ósk.

Ósk Ingvarsdóttir, læknir á neyðarmóttöku.
Ósk Ingvarsdóttir, læknir á neyðarmóttöku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún segir að rannsóknir sýni að 24% kvenna á Norðurlöndum hefur verið nauðgað eða reynt hefur verið að nauðga þeim eða þær beittar öðru kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni.

Ósk segir að þrátt fyrir að þolendur kynferðisofbeldis leiti til þeirra þá sé ekki alltaf þannig að málin séu kærð. En það skiptir ekki máli þegar kemur að þjónustu við fólk. Skýrsla og rannsókn fer fram á neyðarmóttökunni og myndir teknar. Þess sé vandlega gætt að sama ferlið sé í öllum tilvikum og þannig tryggt að auðvelt er að lesa úr gögnum og vinna með þau. Kolbrún Benediktsdóttir tók undir þetta og sagði þetta koma sér vel ef ofbeldið er kært og rannsakað í kjölfarið.

En Ósk segir að margar ástæður geti verið fyrir því að fólk kæri ekki. Til að mynda tengsl milli þolanda og geranda og aðeins tveir til frásagnar.

Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild HR.
Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild HR. mbl.is/Hari

Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, segir að í Hæstaréttardómum varðandi nauðganir og kynferðislegt ofbeldi gagnvart unglingum séu sjaldnast tengsl milli ofbeldismannsins og þess sem verður fyrir ofbeldinu í þeim dómum þar sem sakfellt hefur verið. Jafnframt er yfirleitt lítill aldursmunur milli gerandans og þolandans en annað sé uppi á teningnum þegar brotin beinast að yngri börnum. Það er yngri en 13 ára.

Ósk segir að margt hafi breyst á þessum 25 árum sem liðin eru frá stofnun neyðarmóttökunnar. Til að mynda er meira um neyslu vímuefna og það er meira um klámtengt ofbeldi.

Aukin áhættuhegðun í kjölfar ofbeldis

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir flutti erindi á Læknadögum.
Bryndís Björk Ásgeirsdóttir flutti erindi á Læknadögum. mbl.is/Hari

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent og sviðsstjóri sálfræðisviðs Háskólans í Reykjavík, segir að ungmenni sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku, það er fyrir 18 ára aldur, séu líklegri til þess að glíma við margvísleg vandamál í framtíðinni.

Hún kynnti í málstofunni niðurstöður nýrrar rannsóknar Rannsóknar og greiningar á líðan framhaldsskólanema en þar kemur fram að 32,2% stúlkna hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af einhverju tagi fyrir 18 ára aldur og 9,6% drengja. 

Rannsóknin var gerð í haust og tóku 8.975 nemendur  á aldrinum 16-19 ára þátt. Þetta eru um 70% þeirra ungmenna sem eru skráðir í framhaldsskóla. Kynferðisofbeldið var flokkað í þrjá flokka, strípihneigð/káf, káf á kynfærum án vilja og kynmök án vilja. Flest ungmennin nefndu strípihneigð/ káf en um 10% stúlkna hafi orðið fyrir káfi á kynfærum eða kynmökum án vilja. Því alvarlegra sem kynferðisofbeldið var því verr leið þeim, svo sem voru kvíðnari og glímdu við þunglyndi. Eins er áhættuhegðun ungmenna sem hafa orðið fyrir ofbeldi meiri. Þau eru líklegri til sjálfsskaða, sjálfsvígshugsana og að reyna sjálfsvíg. Jafnframt neyta þau frekar vímuefna og brjóta af sér. 

Bryndís Björk bendir á að það séu línuleg tengsl á milli barna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og þeirra sem nota lyf, það er lyf við þunglyndi, kvíða, ofvirkni, athyglisbresti eða lyf án lyfseðils. Hún segir að rannsóknin sýni að þessi ungmenni eru í höndum lækna og áberandi hvað mörg þeirra sem þurfa á lyfjum að halda við athyglisbresti og mikilvægt að fagfólk sé á varðbergi gagnvart kynferðislegu ofbeldi, fjölbreyttum birtingarmyndum þess og afleiðingum.

Unnur Anna Valdimarsdóttir.
Unnur Anna Valdimarsdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Unnur Valdimarsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, fjallaði um ofbeldi gagnvart konum og áhrif áfalla á heilsufar en hún vinnur að rannsókn á áfallasögu íslenskra kvenna ásamt fleiri vísindamönnum. 

Hún segir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hafi bent á það fyrir allmörgum árum að þriðjungur kvenna verður fyrir ofbeldi á lífsleiðinni og nýjustu rannsóknir bendi til þess að hlutfallið sé enn hærra hér á landi en samkvæmt þeim hafa 40% íslenskra kvenna orðið fyrir annaðhvort líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.

Þóra Steingrímsdóttir, prófessor og yfirlæknir í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum.
Þóra Steingrímsdóttir, prófessor og yfirlæknir í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum. Mynd úr Læknablaðinu

Ofbeldi sem ekki snerti bara þann sem verður fyrir því heldur einnig komandi kynslóðir. 

Þóra Steingrímsdóttir, prófessor og læknir, segir að rannsóknir sýni fram á að konur með sögu um ofbeldi séu miklu líklegri til þess að upplifa yfirgang og ofbeldi af hálfu starfsfólks í heilbrigðiskerfinu. Ofbeldið er upphaf alls ills og leiðir af sér alls konar aðra hluti til að mynda að konur sem þjást af fæðingarhræðslu eru líklegri til þess að biðja um keisaraskurð þrátt fyrir að ekki liggi læknisfræðileg rök fyrir því. Hún segir að þetta sé spurning sem eigi að velta fyrir sér – hvers vegna þær biðji svo oft um að fara í keisaraskurð. Hvort það geti fallið undir andlegt ofbeldi að neita konu um keisaraskurð þegar hún getur ekki hugsað sér að fæða í gegnum leggöng. Eða er það kynferðisofbeldi að þvinga konu til þess að fæða barn í gegnum leggöng? Eða er ónauðsynlegur keisaraskurður ofbeldisaðgerð gegn kvenlíkamanum? 

Þóra segir að ekki megi gleyma körlum þegar kemur að fæðingarhræðslu en þeir eru oft hræddir við fæðingu og oft sýnd minni samúð en konum þegar kemur að þessum ótta. 

Gestir á málstofu um ofbeldi á Læknadögum.
Gestir á málstofu um ofbeldi á Læknadögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ebba Margrét Magnúsdóttir kvensjúkdómalæknir stýrði málstofunni um ofbeldi.
Ebba Margrét Magnúsdóttir kvensjúkdómalæknir stýrði málstofunni um ofbeldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert