Augljóslega deildar meiningar um skýrsluna

Hvalur í Eyjafirði. Atvinnuveganefnd ræddi þjóðhagsleg áhrif hvalveiða á fundi …
Hvalur í Eyjafirði. Atvinnuveganefnd ræddi þjóðhagsleg áhrif hvalveiða á fundi sínum í morgun. Mynd úr safni. Morgunblaðið/Sigurður Ægisson

„Þetta eru upplýsingafundir fyrst og fremst,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar í samtali við mbl.is. Nefndin tók á fundi sínum í morgun fyrir þjóðhagsleg áhrif hvalveiða og er þetta annar fundur hennar um nýlega skýrslu Hag­fræðistofn­un­ar fyr­ir at­vinnu­vegaráðuneytið, þar fram kom að full­yrðing­ar um nei­kvæð áhrif hval­veiða á ís­lenskt efna­hags­lífi eigi ekki við rök að styðja.

Meðal þeirra gesta sem atvinnuveganefnd fékk til sín að þessu sinni voru fulltrúar frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Vistfræðifélagi íslands og Samtökum hvalaskoðunarfyrirtækja.

Lilja segir fundinn hafa verið ætlaðan til þess að halda áfram að upplýsa nefndina um innihald skýrslunnar og gagnrýni á hana frá sem flestum hliðum. Hún játar því að flestir sem rætt var við í dag séu ósáttir við skýrsluna.

Á fyrsta fundi nefndarinnar um málið var rætt við fulltrúa Hafrannsóknastofnunnar og skýrsluhöfunda og segir Lilja eiga eftir að koma í ljós hvort að rætt verði við fleiri. „Þetta er annar fundurinn um þetta og ég veit ekki  hvort það mun verða óskað eftir fleiri gestum. Við höfum auðvitað ekki fengið fulltrúa Hvals t.d. eða þeirra sveitarfélaga þar sem hvalveiðar eru stundaðar þannig að við höfum svo sem ekki tæmt neinn lista sem gæti með beinum eða óbeinum hætti haft beina aðkomu að því hvort að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að halda áfram hvalveiðum eða ekki.“

Fram kom í morgunþætti Rásar 2 í morgun að Hvalaskoðunarfyrirtæki vilji meina að ekki hafi verið rætt við þau við gerð skýrslunnar þó að skýrsluhöfundar haldi öðru fram. Lilja segir þetta hafa komið til tals. „Við höfum fengið mismunandi fullyrðingar í þeim efnum. Skýrsluhöfundar fullyrða eitt og hvalaskoðunarfyrirtækin annað. Það er greinilegt að það eru mjög deildar meiningar um þessa skýrslu og eflaust þarf að líta til fleiri þátta þegar framhaldið verður ákveðið af ráðherra.“

Spurð um afstöðu nefndarmanna segir hún atvinnuveganefnd ekki hafa myndað sér formlega skoðun og ekki hafi heldur verið kallað eftir umsögn nefndarinnar. „Þetta eru upplýsingafundir fyrst og fremst, en ég held að okkur beri heilt yfir saman um að miklu meiri rannsókna er þörf á lífríki hafsins og samspili nytjastofna og þar á meðal hvalsins.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert