Með stærri dögum síðustu ára

Stólalyftan Kóngurinn þétt setin. Mynd úr safni.
Stólalyftan Kóngurinn þétt setin. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

„Þetta var algerlega frábær helgi, meiri háttar byrjun, án allra vandræða og slys minni háttar,“ segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri í Bláfjöllum, um fyrstu skíðahelgi vetrarins sem nú er liðin undir lok.

„Dagurinn í gær var glæsilegur og líklega einn af stærstu dögum síðustu ára,“ segir Einar, en áætlað er að um fimm þúsund manns hafi lagt leið sína í brekkurnar í gær.

Í dag var aðeins rólegra en þó renndu sér yfir þrjú þúsund manns í brekkunum. „Það var aðeins vindur í dag og klukkan fjögur byrjaði að snjóa og hvessa verulega. Við keyrðum lyfturnar alveg til fimm en þetta fjaraði út hægt og rólega,“ segir Einar.

Mbl.is greindi frá því í dag að flytja hafi þurft nokkra á slysadeild frá Bláfjöllum um helgina. Einar segir slysin sem betur fer ekki hafa verið stór.

„Miðað við allan þennan fjölda þá eru þetta í sjálfu sér fá slys. Þetta gekk stórslysalaust en það urðu líka tveir litlir árekstrar á veginum á leiðinni upp eftir.“

Langar biðraðir mynduðust við allar lyftur í gær og segir Einar það gefa augaleið að svæðið sé komið að þolmörkum. „En við erum að fara í uppbyggingu og hlökkum til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert