Persónuvernd varar ráðherra við

Í bréfi til ráðherranna óskar Persónuvernd eftir því að þeir …
Í bréfi til ráðherranna óskar Persónuvernd eftir því að þeir hafi forgöngu um að koma á fót samráðsvettvangi allra þeirra sem koma að kosningum hér á landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Persónuvernd hefur sent forsætis- og dómsmálaráðherra bréf þar sem varað er við þeim hættum sem steðja að lýðræðislegum kosningum vegna samfélagsmiðla. Dómsmálaráðherra framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vakti athygli á þeim hættum sem steðja að lýðræði í Evrópu á fundi með evrópskum persónuverndarforstjórum fyrir jól.

„Stuttu skilaboðin sem komu frá Veru Jourová, dómsmálaráðherra Evrópusambandsins, voru þau að það verða engar kosningar eins hér eftir,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, í samtali við Ríkisútvarpið.

Í bréfi til ráðherranna óskar Persónuvernd eftir því að þeir hafi forgöngu um að koma á fót samráðsvettvangi allra þeirra sem koma að kosningum hér á landi, en í leiðbeiningum Evrópusambandsins um hvernig tryggja megi sanngjarnar og frjálsar kosningar er meðal annars lagt til að stjórnvöld, stjórnmálaflokkar og fjölmiðlar grípi til aðgerða til að verja tölvu- og upplýsingakerfi sín.

Vitundarvakning hefur orðið um blekkingar í kosningabaráttu í tengslum við Cambridge Analytica, bandarísku forsetakosningarnar og Brexit og nú síðast er talið að Bolsonaro, nýkjörinn forseti Brasilíu, geti þakkað blekkingum á samfélagsmiðlum kosningasigur sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert