Viðtal skilaði honum á Bessastaði

Bjarnfreður Ólafsson, Valdimar Sverrisson, Guðni Th. Jóhannesson, Lára Margrét Valdimarsdóttir, …
Bjarnfreður Ólafsson, Valdimar Sverrisson, Guðni Th. Jóhannesson, Lára Margrét Valdimarsdóttir, Anna Valdimarsdóttir og Hildur Anna Valdimarsdóttir á Bessastöðum. Kristinn Magnússon

„Í sjálfhverfu minni var ég að vona að forsetinn myndi minnast á mig í nýársávarpi sínu í sjónvarpinu en það gerðist ekki. Ég fyrirgef honum það hins vegar því daginn eftir barst mér bréf frá forsetanum þar sem hann bauð mér í heimsókn á Bessastaði,“ segir Valdimar Sverrisson, fisléttur í lund að vanda, en fundur þeirra forsetans fór fram síðastliðinn fimmtudag. Valdimar missti sjónina í kjölfar þess að góðkynja æxli var fjarlægt úr höfði hans árið 2015.

Í bréfi forsetans sagði: „Kæri Valdimar. Ég þakka þér kærlega fyrir fjörlegt og skemmtilegt viðtal við þig sem ég las í Morgunblaðinu í morgun. Þú hefur greinilega tekið réttan pól í hæðina, og ert okkur hinum fyrirmynd með æðruleysi þínu, húmor og einlægni. Gangi þér vel í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.“

Með Valdimari í för voru móðir hans, Anna Valdimarsdóttir, dætur hans, Hildur Anna og Lára Margrét, og æskuvinur hans, Bjarnfreður Ólafsson. Elsta dóttir Valdimars, Valdís Ingunn, komst ekki vegna veikinda.

„Ég skemmti mér konunglega á Bessastöðum og við öll,“ segir Valdimar og leggur áherslu á orðið „konunglega“.

„Forsetinn er mjög alþýðlegur og viðræðugóður. Það var mikið hlegið og grínast. Við komum víða við og forsetinn minntist meðal annars á viðtalið við mig í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og hrósaði mér fyrir það. Ég færði honum eintak af Litla prinsinum eftir Saint-Exupéry sem faðir minn, Sverrir Kristinsson, gaf út árið 2016. Ég var ekkert að hlífa forsetanum. Þegar hann spurði hvernig heyrnin væri svaraði ég að sjálfsögðu: Ha?“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert