Minnt á auðlindina í heita vatninu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert

Við erum sjaldan minnt á hvað við eigum mikla auðlind í heita vatninu sem við tökum oftast sem sjálfsögðum og ódýrum hluta af hversdeginum,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, í föstudagspistli sínum þar sem hann ræðir um kalda veðrið að undanförnu og heitavatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu vegna þess.

„Það hefur verið kalt í veðri undanfarna daga og það hefur reynt á innviðina hér á höfuðborgarsvæðinu. Veitur hafa hvatt íbúa til að spara heita vatnið og munu í samráði við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu meta það um helgina hvort þurfi að draga úr heitavatnsþjónustu við stórnotendur,“ segir borgarstjóri.

„Kyndikostnaður víðast hvar erlendis er margfaldur á við það sem við búum við. Um leið er ljóst að Veitur hafa þurft að flýta framkvæmdum við nýja varmastöð sem átti ekki að fara til framkvæmda fyrr en árið 2023. Ástæðan er það mikla uppbyggingarskeið sem stendur yfir í borginni, og að einhverju leyti á höfuðborgarsvæðinu öllu. Þótt met í heitavatnsnotkun hafi verið slegið síðustu daga er sem sagt búist við ennþá meira vatni inn á kerfið til að auka afhendingaröryggi næsta haust.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert