Hvernig horfa Íslendingar á Ofurskálina?

Íslendingar eru klárir í leikinn.
Íslendingar eru klárir í leikinn. Samsett mynd

Annað kvöld fer fram stærsti sjónvarpsviðburður ársins í Bandaríkjunum, Superbowl eða Ofurskálin á góðri íslensku. Los Angeles Rams mætir New England Patriots á Mercedes-Benz-leikvangnum í Atlanta.

Patriots hefur komist níu sinnum í úrslitaleikinn frá aldamótum þegar þeir Bill Belichick, þjálfari Patriots, og leikstjórnandinn Tob Brady gengu til liðs við liðið, og eiga tvímenningarnir möguleika á að vinna sinn sjötta Superbowl-leik fari Patriots með sigur af hólmi á morgun.

Leikurinn verður flautaður af stað klukkan 23:30 annað kvöld og verður hann sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Samkvæmt dagskrá stöðvarinnar hefst útsendingin klukkan 22.

Á meðan margir bíða óþreyjufullir eftir að sjá hvort Brady og félögum takist að sigra enn einn Superbowl-titilinn eru aðrir spenntari fyrir amerísku veitingunum, auglýsingunum og auðvitað sýningunni í hálfleik sem undanfarin ár hefur skartað stórstjörnum á borð við Madonnu, Justin Timberlake, Lady Gaga, Beyonce, Bruna Mars og Katy Perry.

Í ár fellur það í skaut hinna þreföldu Grammy-verðlaunahafa Maroon 5 að halda uppi fjörinu í hálfleik en með hljómsveitinni verður Big Boi og Travis Scott. Vinsældir NFL hafa aukist umtalsvert á Íslandi á undanförnum árum og má ætla að fjölmennt verði á veitingahúsum víða þar sem Superbowl verður á breiðtjöldum, en einnig í heimahúsum þar sem vinahópar koma saman og gera sér glaðan dag.

mbl.is hafði samband við nokkra NFL-áhugamenn sem eru komnir í stellingar fyrir morgundaginn og spurði um leikinn, Superbowl-hefðir og venjur.

Maggi Peran tók ástfóstri við Falcons vegna þrjósku árið 1999 …
Maggi Peran tók ástfóstri við Falcons vegna þrjósku árið 1999 en sá ekki leik með liðinu sínu fyrr en fimm árum síðar. Hann hefur farið á sjö leiki í NFL og segir Superbowl vera jólin fyrir sér. Ljósmynd/Aðsend

Illa séð að hlusta á Maroon 5 í Breiðholtinu

„Þessi viðburður snýst hundrað prósent um skemmtun og mat. Mat og maul,“ segir Magnús Guðmundsson, þekktur sem Maggi Peran. Hann verður í tólf manna heimapartýi á Selfossi annað kvöld.

„Árið 1999 las ég blaðagrein eftir Henry Birgi þar sem hann skrifaði um Atlanta Falcons og Denver Bronocs. Hann sagði að Falcons ættu ekki séns og ég, Breiðhyltingurinn og „underdog“ alla ævi, þurfti þá auðvitað að halda með Falcons,“ segir Maggi um hvernig NFL-áhugi hans kom til.

Hann segir að um aldamótin hafi verið erfitt að fylgjast með NFL enda engar sjónvarpsútsendingar og lítill áhugi á Íslandi og sá hann því ekki leik með liðinu sínu fyrstu fimm árin sem hann hélt með þeim.

Maggi Peran ásamt vinum á Patriots-leik. Hann verður í Patriots-treyjunni …
Maggi Peran ásamt vinum á Patriots-leik. Hann verður í Patriots-treyjunni á morgun en bölvar því þó að þeir hafi náð í Superbowl. Ljósmynd/Aðsend

 „Árið 2004, 2005 þá sat ég á flugvelli og það var leikur með mínu liði þar sem Michael Vick var leikstjórnandi. Hann var geggjaður leikstjórnandi, hljóp eins og vindurinn sem var algjörlega nýtt á þeim tíma,“ segir Maggi. „Þarna varð ég innmúraður en var þá búinn að halda með þeim í fimm ár,“ segir hann og hlær en Maggi hefur farið á sjö leiki í sex borgum á undanförnum árum.

Maggi segir lykilatriði fyrir nýja aðdáendur sem jafnvel eru að horfa á sína fyrstu Ofurskál að vera með tankinn fullan af þolinmæði fyrir kvöldið. „Það eru endalausar pásur og lengri hlé í þessum viðburði en öðrum. Þú ert in for a treat í nokkra klukkutíma. Ekkert pæla of mikið í því að skilja, það kemur. Hlustaðu bara á drengina sem eru að lýsa,“ segir Maggi.

Hann segist sjálfur sjaldnast mikið gefinn fyrir sýninguna í hálfleik og kannski síður í ár. „Það þykir ekkert rosalega kúl að hlusta á Maroon 5 þegar maður er úr Breiðholtinu. Menn hafa dáið fyrir minna,“ segir hann léttur. „Oftar en ekki fer ég í hálfleik og hita meiri vængi, rif eða set eðlu í ofninn og horfi með öðru auganu,“ segir hann.

„Það er á þessum degi sem ég á erfitt með að hafa lítinn maga, en með einbeittum brotavilja hefur mér tekist að troða í mig meira en ég má, en ég leyfi mér það þarna. Þetta eru mín jól,“ segir Maggi. Í partýinu hjá vinahópnum á morgun kemur hver og einn með rétt á borðið og segir Maggi að það sé á huldu hvað hver og einn kemur með. „Kannski endum við með tólf eðlur,“ segir hann  og hlær. „Nei, það er það skemmtilega við þetta. Menn fara að rýna í amerískar uppskriftir. Þetta er ekki réttur með rétti nema hann sé þrjú, fjögur þúsund kaloríur.“

Á treyjur beggja liða en ætlar að klæðast Patriots merktri Brady

„Fyrsti sunnudagurinn í febrúar er heilagur,“ segir Sigurgeir Jónasson, háskólanemi úr Hafnarfirði og mikill NFL-áhugamaður. „Ætli maður bjóði ekki nokkrum vel völdum yfir í kjúklingavængi og með því,“ segir Sigurgeir.

„Pabbi datt inn í þetta þegar við bjuggum í Tampa 1999-2000 og ég byrjaði að horfa á þetta með honum þegar ég var orðinn aðeins eldri,“ segir Sigurgeir en hann er sonur þeirra Rósu Guðbjarts, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, og Jónasar Sigurgeirssonar hjá Bókafélaginu.

Sigurgeir Jónasson í treyju LA Rams á gamlársdag 2017 þegar …
Sigurgeir Jónasson í treyju LA Rams á gamlársdag 2017 þegar liðið mætti San Francisco 49ers. Hann ætlar ekki að klæðast treyjunni á myndinni á morgun heldur verður hann í Patriots-treyju, merktri Tom Brady. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsti Superbowl-leikurinn sem Sigurgeir man eftir að hafa horft á var 2008, en þá töpuðu einmitt Tom Brady og félagar á móti New York Giants. „Eftir að hafa búið í Tampa þá hefur maður alltaf haldið með Tampa Bay Buccaneers þó að maður hafi ekkert sérstaklega hátt um það þessa dagana,“ segir Sigurgeir.

„En svipað og með NBA þá fylgist ég með nokkrum geggjuðum leikmönnum. Brady er einn af þeim, ef hann væri ekki þarna þá væri mér alveg sama um Patriots,“ segir Sigurgeir sem ætlar að klæðast Patriots-treyjunni á morgun en hann á treyjur beggja liða eftir að hafa farið á leik með Rams árið 2017.

Spurður hvað sé mikilvægast við Superbowl segir Sigurgeir að fyrir sér sé það allur pakkinn. „Svo er krúsjal að bjóða upp á Pepsi. Þeir bjóða upp á sýninguna í hálfleik, þá gengur ekki að hafa kók í partýinu.“

Steinþór sækir innblásturinn til Beyoncé

„Ég hafði alltaf fylgst með þessu með öðru auganu, horfði á Superbowl, en áhuginn kviknaði fyrir alvöru þegar ég var á ferðalagi um Bandaríkin. Ég var á einhverjum bar að fylgjast með þessu og tók þá meðvitaða ákvörðun um að verða aðdáandi. Ég byrjaði að halda með Pittsburgh Steelers og kom mér í Fantasy-deild,“ segir Steinþór Helgi Arnsteinsson sem margir kannast við sem spurningahöfund úr Gettu betur.

Steinþór Helgi Arnsteinsson á leik Pittsburgh Steelers á móti Carolina …
Steinþór Helgi Arnsteinsson á leik Pittsburgh Steelers á móti Carolina Panthers. Ljósmynd/Aðsend

„Úr því var ekki aftur snúið,“ segir Steinþór en hann hefur verið kolfallinn aðdáandi síðan 2012. Steinþór segir áhugann á NFL hafa aukist mjög á undanförnum árum. „Hundrað prósent út af Fantasy, en það sem er líka svo gott við þetta er að leikirnir eru fáir, þetta eru 17 umferðir yfir tímabilið og umspilið er einfalt. Þetta er á þægilegum tíma, síðdegis á sunnudögum með fáum undantekningum þegar það eru næturleikir. Fyrir nútímamann eða -konu er mjög þægilegt að fylgjast með þessu,“ segir Steinþór.

Steinþór ætlar að horfa á leikinn á Bryggjunni brugghúsi á morgun. „Ég verð með eitthvert gill á Bryggjunni og pubquiz á undan. Þetta er gaman með góðum félögum,“ segir Steinþór en oft hefur hann verið í Superbowl-teiti í heimahúsi. Spurður hvort hann lumi á einhverjum sniðugum réttum til að brydda upp á stemningu segist hann hafa vanið sig á að gera uppáhaldsnammið hennar Beyoncé fyrir Superbowl.

„Það eru beikonslaufur með púðursykri, ég mæli með því,“ segir Steinþór. „Ég hef gert það margoft, þetta er ekki erfitt. Þú skerð beikonið í sneiðar, setur púðursykur yfir og bakar í ofni.“

Spurður hvort Superbowl sé hápunktur NFL-aðdáenda segir Steinþór það kannski ekki alveg svo. „Það fer eftir því með hvaða liði þú heldur,“ segir hann. „Ég er orðinn svo harður Steelers maður og hata Patriots svo mikið að mér er hálfilla við þetta,“ segir hann.

Spurður hvort það sé eitthvert Superbowl-atvik sem kemur honum til hugar fyrir morgundaginn rifjar hann upp sigur Steelers á Arizona Cardinals árið 2009. „Þetta er áður en ég varð aðdáandi Steelers, en það voru tvö atriði sem voru svakaleg í þeim leik. Annars vegar þegar James Harrisson komst inn í sendingu við núll yarda-línuna og fór yfir allan völlinn og einn gripinn bolti hjá Santonio Holmes sem var ótrúlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert