Opið fram á morgun vegna Ofurskálarinnar

Tom Brady, leikstjórnandi New England Patriots, er sigursælasti leikmaður NFL-deildarinnar …
Tom Brady, leikstjórnandi New England Patriots, er sigursælasti leikmaður NFL-deildarinnar frá upphafi. Hann verður í eldlínunni á sunnudagskvöld. AFP

Keiluhöllin í Egilshöll verður með vínveitingaleyfi og opið til klukkan sex að morgni mánudags vegna úrslitaleiksins í NFL-deildinni; Ofurskálarleiksins. Alls hafa sjö staðir í Reykjavík fengið að framlengja opnunartíma vegna leiksins en umsóknir voru samþykktar á fundi borgarráðs á fimmtudag.

Leikurinn hefst klukkan 23.30 á sunnudagskvöld en í ár mætast New England Patriots og Los Angeles Rams í Atlanta. Leiktím­inn er oft­ast á bil­inu þrjár og hálf klukku­stund upp í fjór­ar klukku­stund­ir, en lengstu leik­ir hafa farið aðeins fram yfir þann tíma. 

Bjarni Fel/Hressó fær að hafa opið til fimm, Ölver og American Bar til hálf fimm, Ægisgarður, Bastard brew and food á Vegamótastíg og Bryggjan brugghús færð að hafa opið til fjögur, með blessun borgarráðs.

Kolbrún Baldursdóttir, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins á fundinum, bókaði mótmæli vegna tímabundins áfengisleyfis í tengslum við leikinn á American Bar í Austurstræti. Vísaði í hún í lögreglusamþykkt frá 2008 þar sem meðal annars kemur fram að bannað sé að hafast nokkuð að sem veldur ónæði eða raskar næturró manna.

Hljómsveitin Maroon 5 kemur fram í hálfleikssýningu, sem virðist skipta marga meiru máli en leikurinn sjálfur. Aðdáendur sveitarinnar hafa þó hvatt Maroon-liða til að hætta við að koma fram vegna framkomu deildarinnar gegn Colin Kaepernick en þau mótmæli hafa ekki skilað árangri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert