Ríkið styrkir íslenskar bíósýningar

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/RAX

Heimilt er að greiða sérstaka sýningarstyrki úr ríkissjóði vegna sýninga kvikmynda á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi. Reglugerð sem heimilar greiðslu sýningarstyrkja til framleiðenda kvikmynda á íslensku hefur verið samþykkt og undirrituð af mennta- og menningarmálaráðherra.

Í reglugerðinni segir að sýningarstyrkir skuli nema allt að 20% af heildarsölutekjum kvikmynda í almennum sýningum á íslensku í innlendum kvikmyndahúsum á því ári eftir því sem fjárveitingar leyfa en menntamálaráðherra ákveður hvaða fjárhæð skuli varið til sýninga af fjárveitingum í Kvikmyndasjóð.

„Íslenskar kvikmyndir skipa mikilvægan sess í menningu okkar og þessi nýja reglugerð fylgir eftir þörfum breytingum á kvikmyndalögum sem samþykktar voru síðasta vor,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, á vef Stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert