Carmen hló að fullyrðingum Jóns Baldvins

Carmen Jóhannsdóttir segist hafa skellt upp úr þegar hún hlýddi …
Carmen Jóhannsdóttir segist hafa skellt upp úr þegar hún hlýddi á viðtalið við Jón Baldvin í morgun. mbl.is/Eggert

„Þetta er bara hlægilegt. Ég fór bara að hlæja,“ segir Carmen Jóhannsdóttir í samtali við mbl.is, um viðtal við Jón Baldvin Hannibalsson í Silfrinu í morgun þar sem Jón Baldvin sagði að „veislan á þakinu“ hefði verið sviðsett. Hún segir fullyrðingar Jóns Baldvins vera ótrúlegar, fáránlegar og að þær dæmi sig sjálfar. Hún segir viðtalið hafa ýtt undir þá hugsun hennar að „fara með málið alla leið“ og ætlar sér að ákveða í vikunni hvort hún kærir málið til lögreglu.

„Eins og ég hef sagt inni á fésbókarhópnum [#metoo Jón Baldvin Hannibalsson] þá finnst mér þetta segja sig sjálft og hann hafa afhjúpað sig og komið verulega illa fyrir í þessu viðtali,“ segir Carmen.

„Svo langsótt“

„Ég þekki [Jón Baldvin] ekkert en ég átti ekki von á því að hann færi að segja að þetta væri sviðsett. Það er svo langsótt,“ segir Carmen sem segist hafa fylgst með viðtalinu, en hún er búsett á Spáni. „Bryndís [Schram, eiginkona Jóns Baldvins] var í mörg ár búin að bjóða mömmu minni að koma að heimsækja þau þarna og svo loksins sló hún til. Mér finnst í raun magnað að þetta hafi verið það sem hann ákvað að segja,“ segir Carmen sem segir það ekki vera neitt mál að sýna fram á, m.a. með tölvupóstsamskiptum, að koma þeirra mæðgna hafi verið í fullu samráði við Bryndísi.

Carmen segir undanfara heimsóknarinnar vera þann að hún hafi verið á leið frá Kosta Ríka til Spánar, að hitta móður sína, þegar móðir hennar spurði hana hvort hún myndi vilja koma með í ferðalag, og heimsækja Bryndísi, hér um bil um leið og Carmen lenti á Spáni. Hún segist hafa verið til í það vegna þess að hún vildi eyða tíma með móður sinni en hafi að öðru leyti komið algjörlega ókunnug inn í aðstæðurnar sem síðar sköpuðust. „Enda þekki ég þetta fólk ekki neitt.“

Hefur aldrei hitt Aldísi

Í áðurnefndu viðtali við Jón Baldvin spurði Fanney Birna Jónsdóttir þáttarstjórnandi, eftir að Jón Baldvin hafði haft uppi áðurnefndar fullyrðingar, af hverju einhver myndi setja á svið viðlíka atburð. Jón Baldvin svaraði þá á þá leið að það væri ekki hans að skýra en það væri hópur í kringum Aldísi Schram, dóttur hans, sem vildi vitna með henni. Spurð um þetta segist Carmen aldrei hafa hitt Aldísi Schram og að samskipti þeirra hafi einungis verið óbein og í gegnum fésbókarhópinn #metoo Jón Baldvin Hannibalsson. „Það er ekki fræðilegur möguleiki að Aldís hafi skipulagt þetta.“

Hefur fengið stuðning fjölmiðla úti

Spurð hvernig henni finnist að vera komin í þá stöðu að þurfa að svara fullyrðingum sem þessum segir Carmen að hún hafi búist við því að kannski myndi eitthvað koma frá Jóni Baldvini en bætir við: „Það er allt í lagi með mig.“

Eins og áður segir er Carmen að hugsa um að kæra málið til lögreglu og segist hún hafa fundið fyrir stuðningi úti á Spáni, en meðal annars hafi stærsti miðill Granada-héraðs haft samband við hana og sýnt henni stuðning. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert