Sveitarstjórnarlög hafi verið brotin

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum segir meirihlutann hafa brotið sveitarstjórnarlög með …
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum segir meirihlutann hafa brotið sveitarstjórnarlög með því að ráðast í úttekt á kostnaði við Fiskiðjuna í Vestmannaeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, segir að meirihluti bæjarstjórnar hafi brotið sveitarstjórnarlög með því að ráðast í úttekt vegna áætlaðs kostnaðar og heildarkostnaðar vegna framkvæmda við Fiskiðjuna, án þess að það hafi verið rætt og samþykkt í bæjarstjórn. Þetta kemur fram í aðsendri grein Hildar á vef Eyjafrétta.

Framkvæmdir við þetta fasteignaþróunarverkefni í Vestmannaeyjum hafa farið fram úr áætlun sem nemur 56 milljónum, samkvæmt svari sem Ólafur Þór Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar, veitti Vísi í síðasta mánuði.

„Á fundi bæjarstjórnar [31. janúar] átti sér stað sérstök atburðarás. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru tilbúnir með breytingatillögu vegna ákvörðunar bæjarráðs um úttekt vegna framkvæmda við Fiskiðjuna. […] Hins vegar reyndist ógerlegt að leggja slíka tillögu fram þar sem það kom á daginn að umrædd úttekt verktaka sem lá til staðfestingar bæjarstjórnar var komin langt á veg án nokkurrar efnislegrar umfjöllunar né staðfestingar í bæjarstjórn líkt og lög kveða á um,“ skrifar Hildur í grein sinni.

Bæjarráð samþykkti í desember að ráðast í úttektina, en bæjarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins greiddi hins vegar atkvæði gegn málinu. Hildur segir að samkvæmt sveitarstjórnarlögum þýddi mótatkvæðið að ræða ætti málið í bæjarstjórn, áður en hægt væri að hefjast handa við úttektina.

Úttektin mun hins vegar vera langt á leið komin og er í höndum KPMG, endurskoðanda bæjarins.

„Þessi málsmeðferð hefur náttúrulega bara verið fullkomlega óeðlileg,“ segir Hildur í samtali við mbl.is, en hún segir sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum ekki hafa tekið ákvörðun um hvort þeir muni aðhafast frekar vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert