Bjargað úr kuldanum inn í klefa

Það hefur kólnað mjög í veðri að nýju.
Það hefur kólnað mjög í veðri að nýju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kom manni til bjargar í nótt sem svaf undir húsvegg í miðbænum. Maðurinn, sem var  í annarlegu ástandi, var orðinn kaldur og hafði í engin hús að venda. Hann gistir fangageymslur lögreglunnar á Hverfisgötu en mjög hefur kólnað frá því í gær.

Um sex stiga frost er á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt mælum Veðurstofu Íslands og mun meira frost er á mælum bifreiða eða allt að 10 stiga frost og fólk ætti að gefa sér tíma til að hreinsa af bifreiðum sínum áður en lagt er af stað út í umferðina. 

Unnið hefur verið að hreinsun gatna og stíga síðan í nótt en eitthvað bætti í snjó á höfuðborgarsvæðinu í gær. 

Samkvæmt athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands hvessir talsvert í nótt um landið sunnanvert og stormur á þeim slóðum síðdegis á morgun. Viðbúið að því geti fylgt talsverður skafrenningur fram eftir morgundegi þar til hlánar og verði síðan mjög mikil hálka. Vegfarendur sýni aðgát. 

Frostið mældist 21,2 gráður við Mývatn í nótt og 28,4 gráður í Möðrudal.

„Nokkuð víða hægur vindur og bjart veður ásamt köldu veðri í dag, en bætir í vind um sunnanvert landið í kvöld og dregur úr frosti þar. Á morgun má búast við austan hvassviðri eða stormi, hvassast allra syðst. Hlánar sunnantil og víða rigning eða slydda á láglendi. Fyrir norðan dregur úr frosti en þar verður vindur mun hægari og lengst af þurrt. 

Á miðvikudag og dagana þar á eftir er svo útlit fyrir að hann halli sér í norðaustanáttina aftur og frysti víðast hvar með éljum norðan- og austantil, en léttir til sunnan- og vestanlands. Þó gæti hitinn komist yfir frostmark yfir hádaginn um landið sunnanvert af og til ef sólar nýtur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Spáin fyrir næstu daga:

Austlæg eða breytileg átt, gola eða kaldi. Þurrt N-til á landinu og talsvert frost. Víða dálítil snjókoma suðaustan til og á Austfjörðum fram eftir degi en annars úrkomulítið. Frost yfirleitt 0 til 10 stig. Vaxandi austanátt í kvöld með éljum sunnanlands, 15-23 og rigning eða slydda sunnan til síðdegis á morgun, hvassast syðst. Hægari fyrir norðan og lengst af þurrt. Hiti 1 til 6 stig syðra síðdegis, en 0 til 8 stiga frost um landið norðanvert.

Á þriðjudag:

Gengur í austan 13-23 m/s, hvassast við suðurströndina. Snjókoma, en slydda eða rigning við ströndina, einkum SA-lands. Þurrt N-til á landinu, en dálítil snjókoma og hvessir þar með kvöldinu. Frost 0 til 5 stig síðdegis, en 0 til 5 stiga hiti sunnan heiða. 

Á miðvikudag:
Norðaustan 10-18 m/s. Snjókoma og síðar él N- og A-lands, en þurrt á S- og V-landi eftir hádegi. Hiti 0 til 4 stig syðst, annars 0 til 5 stiga frost. 

Á fimmtudag, föstudag og laugardag:
Norðaustanátt og él, en léttskýjað S- og V-lands. Frost 0 til 8 stig, en kaldara inn til landsins. 

Á sunnudag:
Útlit fyrir hæga breytilega átt með fremur köldu veðri og stöku éljum við N- og A-ströndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert