Breikkun Vesturlandsvegar ljúki 2022

Ekki er gert ráð fyrir því að framkvæmdum við Vesturlandsveg …
Ekki er gert ráð fyrir því að framkvæmdum við Vesturlandsveg seinki vegna tilfærslna á fjárveitingum milli ára. Sigurður Bogi Sævarsson

Framkvæmdir við breikkun Vesturlandsvegar hefjast í haust og mun þeim ljúka á árinu 2022, samkvæmt áætlun, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Þar segir enn fremur að verklokum muni ekki seinka þrátt fyrir tilfærslur á fjárveitingum í verkið milli ára.

Deiliskipulag vegarins um Kjalarnes hefur verið í undirbúningi síðan síðastliðið sumar og stefnt er að því að bjóða út verkhönnunina á næstunni. Í haust verður strax hafist handa við lagningu hliðarvega sem síðar munu nýtast til að beina umferðinni um þegar framkvæmdir verða í fullum gangi við sjálfa breikkun vegarins.

Sveitarstjóri Borgarbyggðar, Gunnlaugur A. Júlíusson, sagði í samtali við Morgunblaðið að bæjaryfirvöld hefðu áhyggjur af því að lagfæringar á veginum um Kjalarnes dragist. Byggðarráð sendi frá sér yfirlýsingu þar sem alvarlegar athugasendir voru gerðar við það að flytja ætti fjárveitingar frá fyrirhugaðri uppbyggingu vegarins á Kjalarnesi til annarra verkefna.

Á vef Vegagerðarinnar segir að breytingarnar hafi verið vegna hagræðingarkröfu í fjárlögum upp á um 400 milljónir króna og forgangsröðunar annarra verkefna og því hafi þurft að færa til alls um 1.500 milljónir króna. Þá segir að þessi lækkun fjárveitinga árið 2019 leiði til samsvarandi breytinga á fjárveitingum næstu ár á eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert