Hár styrkur köfnunarefnisdíoxíðs í borginni

Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) er hár í borginni í dag samkvæmt …
Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) er hár í borginni í dag samkvæmt mælistöðinni við Grensás. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) er hár í borginni í dag samkvæmt mælingum í mælistöðinni við Grensásveg. Hefur styrkur köfnunarefnisdíoxíðs raunar verið hár undanfarna daga að því er segir í fréttatilkynningu Umhverfisstofnunar.

Klukkan 9 í morgun mældist styrkur köfnunarefnisdíoxíðs 104,4 og klukkan 11 var hann 98,4, en sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru 75 míkrógrömm á rúmmetra. 

Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er mest á morgnana og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. „Gert er ráð fyrir áframhaldandi hægviðri og frosti í dag og umtalsverðar líkur á því að styrkur köfnunarefnisdíoxíðs fari yfir sólarhringsheilsuverndarmörk við Grensásveg,“ segir í tilkynningu Umhverfisstofnunar.

Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndunarvegi og því ættu þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn að forðast útivist í lengri tíma, sem og að takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðargatna. 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hvetur fólk þá til að minnka bílanotkun sína og nýta sér almenningsamgöngur og aðra vistvænni ferðamáta til að draga úr mengun.

Hægt er að fylgjast með styrk köfnunarefnisdíoxíðs og annarra mengandi efna á www.loftgaedi.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert