Ætla að samræma rafrænar lyfjaupplýsingar

Til stendur að samræma upplýsingar um lyf á Evrópska efnahagssvæðinu …
Til stendur að samræma upplýsingar um lyf á Evrópska efnahagssvæðinu og hefja notkun rafrænna fylgiseðla. Thinkstock

Til stendur að samræma upplýsingar um lyf á Evrópska efnahagssvæðinu og hefja notkun rafrænna fylgiseðla, að því er fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Um þetta er m.a. fjallað í drögum að stefnu um rafrænar lyfjaupplýsingar sem birt hefur verið til umsagnar á vef Lyfjastofnunar Evrópu, en umsagnarfrestur er til 31. júlí næstkomandi.

Hverju lyfi sem hefur markaðsleyfi á EES-svæðinu fylgja upplýsingar um lyfið og notkun þess, annars vegar upplýsingar ætlaðar notandanum, hins vegar sértækari upplýsingar fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Upplýsingar til notandans hafa fylgt lyfinu sem blöðungur í pakkningu þess, en tölvutæknin býður upp á að þessum upplýsingum verði dreift með einfaldari og ódýrari hætti. Slíkri dreifingu fylgir jafnframt meira öryggi þar sem auðveldara er að uppfæra upplýsingarnar þegar þess gerist þörf og fámennari málsvæði fá aukna möguleika á að fá lyfjaupplýsingar á sínu móðurmáli.

Fjallað var um innleiðingu rafrænna fylgiseðla með lyfjum í tilkynningu velferðarráðuneytisins í september á síðasta ári. Þá var samþykkt á fundi í stýrinefnd Evrópuráðsins um lyf og lyfjafræðilega þjónustu tillaga Íslands sem borin var fram fyrir hönd heilbrigðisráðherra um tilraunaverkefni á þessu sviði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert