Farið er að hvessa hressilega á Suðvestur- og á Suðurlandi og eins hefur hlýnað. Spurning er hvort hefur vinninginn, rokið eða hlýindin. „Þetta verður alltaf kapphlaup,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, „því það þarf að blotna meir í snjónum til þess að koma í veg fyrir að hann fari af stað“.
Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóasvæðinu og Suðurlandi. Þar tekur appelsínugul viðvörun við klukkan 15.
Á sjálfvirkum stöðvum Vegagerðarinnar má sjá að vindurinn er farinn að slá í 38 metra á sekúndu í hviðum undir Eyjafjöllum. Næstu klukkustundir á eftir að hvessa enn frekar, einkum syðst og í Öræfasveit þar sem fer í rok og jafnvel staðbundið ofsaveður með hviðum allt að 45 m/s. Líkur á talsverðum skafrenningi fram eftir degi þar til fer að hlána en þá getur myndast mikil hálka. Lægir mikið í nótt.
Þegar er farið að skafa á Suðurlandsvegi og er varað við lélegu skyggni þegar lausamjöllin fer af stað víða suðvestanlands og austur með suðurströndinni. Meðal annars á Kjalarnesi, Suðurlandsvegi ofan Reykjavíkur sem og í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins.
Í dag hvessir jafnt og þétt á landinu þar til síðdegis og má þá búast við að vindur verði almennt 15-23 m/s, en staðbundið sunnan til á landinu 20-28 m/s og hviður við fjöll yfir 40 m/s.
Þar sem snjór þekur meira og minna allt landið og búið að vera frost að undanförnu, er snjórinn því frekar léttur og þarf ekki mikið til þess að mynda skafrenning. Á móti er farið að blotna í efsta laginu um sunnanvert landið, alla vega á láglendi og þá er stóra spurningin hvort blotinn nær að binda snjóinn nægilega til að draga úr eða hindra skafrenning eða hvort vindurinn hafi vinninginn.
Oft er þetta bara örfárra sentimetra blotalag efst og undir lúrir frosinn og léttur snjórinn og ef vindurinn nær í hann getur orðið verulega blint. Á heiðum hins vegar verður hlýnunin það lítil að þar mun skafa hressilega, segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Einnig getur orðið verulega hált þar sem yfirborð vega og stíga hlánar en frostið í jörðinni leitar þá upp og getur myndað flughálku. Því er vert að gæta fóta sinna, segir Óli Þór sem hefur verið á vakt í nótt.
„Þetta verður mjög tæpt: hvort þetta fer af stað eða ekki,“ segir hann spurður um líkur á ófærð vegna skafrennings og snjófoks í dag. „Það er að bæta í vind og það snýst í meiri austanátt næstu tvær klukkustundirnar og þá gæti dregið aðeins úr vindi um tíma en nær sér aftur á strik um níu- eða tíuleytið. Eftir það gefur vindurinn ekkert eftir fyrr en einhvern tíma í nótt,“ segir Óli. Þetta gildir um allt sunnanvert landið, það er Snæfellsnes og beint austur úr.
Vaxandi austanátt og sums staðar skafrenningur, 15-23 með morgninum S- og V-lands, en hvessir enn frekar þegar kemur fram á daginn, 18-28 síðdegis og hvassast við fjöll S-til. Mun hægari á N- og A-landi. Slydda eða rigning allra syðst á landinu en dálítil slydda eða snjókoma A-lands. Minnkandi frost í dag og fer að hlána víða S-lands með morgninum.
Hægari í nótt og á morgun og víða 10-18 síðdegis, en heldur hvassari SA- og NV-til. Éljagangur um landið N- og A-vert og slydda á köflum SA-lands, en þurrt á SV- og V-landi. Vægt frost, en frostlaust með S- og V-ströndinni.
Norðaustan 10-20 m/s, hvassast á Vestfjörðum og við SA-ströndina. Snjókoma og síðar él N- og A-lands, en úrkomulítið á SV- og V-landi. Hiti 0 til 4 stig syðst, annars 0 til 5 stiga frost.
Á fimmtudag, föstudag og laugardag:
Norðaustanátt, 5-15 m/s, hvassast með SA- og A-ströndinni. Él, en léttskýjað S- og V-lands. Frost 0 til 8 stig, en kaldara inn til landsins.
Á sunnudag:
Lægir og birtir til N- og A-lands, en vaxandi suðaustanátt SV-til og þykknar upp. Minnkandi frost, einkum SV-til.
Á mánudag:
Útlit fyrir stífa suðaustanátt með ofankomu, en síðan suðvestanátt með skúrum eða éljum. Úrkomulítið NA-til. Hiti 0 til 5 stig, en lengst af vægt frost fyrir norðan.
Appelsínugul viðvörun hefur verið gefin út á Suðurlandi frá klukkan 15 í dag til klukkan 22. „Gengur í austanstorm eða -rok og jafnvel staðbundið ofsaveður í Austur-Landeyjum og undir Eyjafjöllum. Hviður geta náð allt að 45 m/s. Hætta á foktjóni og ekkert ferðaveður,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.
Gul viðvörun tók gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan 6 í morgun og gildir hún til klukkan 3 í nótt. Á Faxaflóasvæðinu er einnig gul viðvörun í gildi en hún gildir til klukkan 6 í fyrramálið. Á Suðurlandi hefur gul viðvörun gilt frá því þrjú í nótt og gildir til klukkan 15 í dag þegar appelsínugula viðvörunin tekur við. Gul viðvörun tekur að nýju gildi á Suðurlandi klukkan 22 í í kvöld og gildir til klukkan sex í fyrramálið.
Á Suðausturlandi er gul viðvörun frá klukkan 15 í dag þangað til klukkan sex í fyrramálið.
Búast má við að eftirfarandi vegir lokist eða verði ófærir vegna veðurs þriðjudaginn 5. og miðvikudaginn 6. febrúar meðan veður sem spáð er gengur yfir.
Hvolsvöllur – Vík
Lokun kl. 12:00. 5. feb.
Líkleg opnun: kl 04:00 6. feb.
Skeiðarársandur og Öræfasveit (Núpsstaður-Höfn)
Lokun kl. 16:00 5. feb.
Líkleg opnun: kl 10:00 6. feb.
Hellisheiði og Þrengsli
Lokun kl. 06:00 5. feb.
Líkleg opnun 05:00 6. feb.
Kjalarnes
Lokun kl. 07:00 5. feb.
Líkleg opnun 12:00
Mosfellsheiði
Lokun kl. 07:00 5. feb.
Líkleg opnun 05:00 6. feb.