„Við störum bara á veðurkortin“

Veginum um Skeiðarársand (frá Núpsstað) verður líklega lokað um klukkan …
Veginum um Skeiðarársand (frá Núpsstað) verður líklega lokað um klukkan tvö í dag vegna veðurs, ásamt fleiri vegum á Suður- og Suðausturlandi. Ljósmynd/Vegagerðin

Vonskuveðrið sem ganga á yfir allt land, að Norðurlandi undanskildu, er örlítið seinna á ferðinni en búist var við en Vegagerðin reiknar með að loka fyrstu vegum um klukkan eitt í dag.

„Það eru engar aðgerðir hafnar enn en við erum að læðast að öllum hliðum og raða upp fólki,“ segir Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vík, í samtali við mbl.is.

Búist er við að þjóðveginum milli Hvolsvallar og Víkur verði lokað klukkan 13, veginum um Skeiðarársand, Öræfi og Höfn klukkan 14 og líklegt er að Hellisheiði og Þrengslum verði lokað um klukkan 16.

Björgunarsveitir um allt land eru í viðbragðsstöðu að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, og munu björgunarsveitarmenn standa vaktina við hlið sem loka þjóðveginum.

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðurlandi þar sem getur …
Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðurlandi þar sem getur orðið staðbundið ofsaveður um tíma síðdegis og í kvöld. Kort/Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Suðausturlandi og á miðhálendinu en appelsínugul viðvörun á Suðurlandi þar sem gengur í austanstorm eða -rok og jafnvel staðbundið ofsaveður í Austur-Landeyjum og undir Eyjafjöllum. Hviður geta náð allt að 45 metrum á sekúndu og hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður.

Ber að taka viðvaranir alvarlega

„Það eru í gildi viðvaranir og þær ber að taka alvarlega. Appelsínugul viðvörun á Suðurlandi er ekki eitthvað sem við eigum að venjast og við tökum því alvarlega og erum meira vakandi yfir því að eitthvað gæti gerst,“ segir Davíð.

Ágúst segir að Vegagerðin fylgist vel með gangi mála. „Þetta gengur allt eftir nema að það færist allt aftur um einn klukkutíma, það er örlítið seinna á ferðinni veðrið en það er allt að koma. Það verða allir settir á stöðvar og svo bíðum við bara. Ef þetta fer upp í eitthvað ókristilegt þá skellum við í lás. Það verður ekki gert fyrr, það verður ekki lokað eftir klukku, heldur vindstyrk. Við störum bara á veðurkortin, það er bara svoleiðis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert