Segir „hótanir“ ekki koma á óvart

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir Seðlabankann fylgja gallaðri hugmyndafræði …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir Seðlabankann fylgja gallaðri hugmyndafræði í vaxtamálum sem virðist gera lítið annað en auka verðbólgu. mbl.is/Eggert

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri hótar því að vextir verði hækkaðir ef við semjum um mannsæmandi kjarabætur fyrir þá hópa sem standa verst í okkar samfélagi. Hann hótaði því fyrir síðustu kjarasamninga ef laun myndu hækka í 300 þúsund og hækkaði stýrivexti í þrígang í kjölfarið.

Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is vegna þeirra ummæla seðlabankastjóra að samdráttur sé ekki fram undan í þjóðarbúskapnum samhliða minni spennu nema þjóðfélagið verði fyrir nýjum áföllum og að verkföll og launahækkanir langt umfram svigrúm yrðu slíkt áfall og myndu leiða til hærri vaxta og atvinnuleysis.

„Það liggur alveg fyrir að þessar sífelldu hótanir um vaxtahækkanir, og í rauninni það að halda hér uppi þessu gríðarlega háa vaxtastigi, er ákveðinn þrýstingur á kaupgjaldið vegna þess að fólk þarf einhvern veginn að standa undir því að búa við þessi lífskjör, þessa fáránlegu vaxtastefnu, og í rauninni hugmyndafræði um það að reyna að vaxtastýra hér neyslu á meðan 90% af húsnæðislánum eru verðtryggð á föstum vöxtum,“ segir Ragnar.

Þetta bíti í raun ekki nema helst þá til dæmis á fyrirtækin og kostnað þeirra, sem aftur þurfa þá að hækka verðlag til þess að standa undir kostnaði af hærri vöxtum, sem og hugsanlega skammtímaskuldir. Ragnar bendir á að ein af forsendum útreikninga verkalýðsfélaga séu framfærsluviðmið sem stjórnvöld sjálf hafi gefið út. Þar sé húsnæðiskostnaður inni í sem sé mjög hár einmitt vegna hás vaxtastigs. 

Afleiðing meingallaðrar hugmyndafræði

Ragnar bendir á að auknar ráðstöfunartekjur almennings kæmu sér vel fyrir fyrirtækin og efnahagslífið þar sem fólk hefði þá meira svigrúm til þess að kaupa vörur og þjónustu umfram það að kaupa í mesta lagi aðeins brýnustu nauðsynjar. Ragnar segir ummæli seðlabankastjóra þannig vera fyrst og fremst afleiðingu af meingallaðri hugmyndafræði sem fylgt sé þegar komi að vaxtastefnu Seðlabankans.

„Þetta vekur enn og aftur upp spurningar um það hvort ekki sé kominn tími á gagngera endurskoðun á peningastefnu Seðlabankans. Vaxtahækkanir bankans í kjölfar síðustu kjarasamninga hafi ekki verið afleiðing þeirra meðal annars heldur fyrst og fremst röng ákvörðun bankans á grundvelli rangrar hugmyndafræði. 

„Þetta er bara hugmyndafræði sem ég held að sífellt fleirum verði ljóst að standist ekki skoðun. Það hafa margir gagnrýnt vaxtaákvörðun Seðlabankans, ekki bara ég. Við erum að greiða gríðarlega mikið í vexti, bæði fyrirtækin og almenningur í landinu, og þessum vöxtum þarf að mæta með hærri kaupkröfu og hærri álagningu fyrirtækja.“

Fyrirtækin búi þannig ekki til peninga úr loftinu einu saman til þess að standa undir vaxtakostnaði. „Þannig að það er allra hagur, og Seðlabankinn ætti að vera miklu frekar í því að reyna að vinna með okkur í að ná niður fjármagnskostnaði og kostnaði við að lifa í staðinn fyrir að standa í slíkum hótunum og jafnvel standa við slíkar hótanir, líkt og í kjölfar síðustu kjarasamninga, sem virðast skila litlu öðru en hærri verðbólgu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert