Segja snjallúrin bæði prófuð og viðurkennd

ENOX snjallúr. Framleiðandi úranna er ósáttur við innköllun Neytendastofu á …
ENOX snjallúr. Framleiðandi úranna er ósáttur við innköllun Neytendastofu á úrunum.

ENOX Safe-Kid-One, barnasnjallúrið sem Morgunblaðið greindi frá í morgun að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði innkallað, var prófað, viðurkennt og sala á því leyfð af Bundesnetzagentur í Þýskalandi, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá framleiðanda úranna.

Er Bundesnetzagentur að sögn fyrirtækisins sú stofnun, sem vakir yfir netöryggi og tengdum tækjum og tækni í Þýskalandi og talin bæði kröfuhörð og föst fyrir.

„Jafngildir viðurkenning Bundesnetzagentur söluleyfi fyrir öll ESB- og EFTA-lönd, Ísland meðtalið,“ segir Ole Anton Bieltvedt forstjóri Enox í yfirlýsingu sinni.

Neytendastofa hafi tekið ákvörðun um innköllun úranna rétt fyrir jól og í kjölfarið hafi hann átt fund með Hópkaupum, sem eru umboðsaðilar Enox á Íslandi. 11. janúar sl. hafi fyrirtækið svo sent Hópkaupum sínar athugasemdir við ákvörðun Neytendastofu.

„Hópkaup kærðu síðan þessa innköllun til áfrýjunarnefndar neytendamála. Í stað þess að bíða niðurstöðu, dreifði Neytendastofa upplýsingum um þessa innköllun um allan heim. Væntanlega til að slá sjálfa sig til riddara,“ segir í yfirlýsingunni og bent er á að frétt um innköllunina hafi birst í fjölda evrópskra fjölmiðla í gær.

ENOX Safe-Kid-One hafi hins vegar verið prófað, viðurkennt og sala á því leyfð af Bundesnetzagentur.

Kveðst Ole Anton vísa á bug ásökunum og fullyrðingum Neytendastofu, um „að Safe-Kid-One (SKO) sé óöruggt, það standist ekki Evrópustaðla og að það geti „ógnað öryggi barna“, umfram það, sem önnur snjallúr og snjalltæki á íslenskum og evrópskum markaði gera“.

„Við getum ekki betur séð, en að hér sé um að ræða skipulega aðför Neytendastofu að einu eða tveimur merkjum, af tugum eða hundruðum merkja og snjalltækja á íslenskum markaði.“

Sé svo skorti allt meðalhóf og jafnræði í eftirliti og aðgerðum, sem hljóti að flokkast undir „ófagleg og gangrýnisverð vinnubrögð“.

Enox muni kanna málið nánar og láta Neytendastofu „sæta ábyrgð á þessari aðför sinni, eftir því sem endanleg efni standa til“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert