Þrepakerfi á allt að 59 milljarða króna

Indriði H. Þorláksson og Stefán Ólafsson leggja til víðtækar breytingar …
Indriði H. Þorláksson og Stefán Ólafsson leggja til víðtækar breytingar á skattkerfinu í skýrslu sinni fyrir Eflingu. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

„Fjölgun skattþrepa með mismunandi skatthlutfalli er einfaldasta og virkasta leiðin til að hafa áhrif á dreifingu skattbyrðar af tekjuskatti,“ segir í skýrslu Stefáns Ólafssonar og Indriða H. Þorlákssonar, sem þeir unnu fyrir Eflingu.

Lagt er til að fjölga skattþrepum tekjuskatts, hækka fjármagnstekjuskatt og koma á eignaskatti.

Skýrslunni, sem ber heitið Sanngjörn dreifing skattbyrðar: Hvernig leiðrétta má stóru skattatilfærsluna án þess að veikja velferðarkerfið, er ætlað að skila hugmyndum og tillögum að breytingum á skattkerfinu „á þann veg að bætt yrði staða lágtekjufólks með sanngjarnari skattheimtu en um leið tryggt nægilegt fé til opinberrar þjónustu sem er auk viðunandi launakjara önnur meginstoð velferða þessara þjóðfélagshópa,“ að því er segir í formála hennar.

Skýrslan var kynnt á fundi Eflingar í morgun.

Skattþrepin fjögur

Lagt er til að fjölga skattþrepum í fjögur og til viðbótar verði komið á sérstöku „ofurtekjuþrepi“. Þá er gert ráð fyrir því að lægsta skattþrepið sem mun ná til lágmarkstekna verði lækkað til þess að hækka skattleysismörk.

Annað og þriðja skattþrep segja höfundar eiga að miða að því að halda skattbyrði efri meðaltekjuhópa óbreyttri frá því sem nú er. Fjórða þrepið á hins vegar að hækka skatta á háar tekjur.

Auk þessara þrepa er lagt til að sérstakt þrep verði á það sem höfundar alla „ofurtekjur“. Er þeirri hugmynd varpað fram að slík skattheimta geti tekið mið af til að mynda fjórföldum meðaltekjum launþega.

Ekki er tekið nákvæmlega fram hver þrepin eiga að vera í tillögunum, en höfundar kynna útfærslu sem þeir segja „næst meginviðmiðum hins sameiginlega ramma ASÍ félaganna“. Þó er gert ráð fyrir að hækka persónuafslátt nokkuð, en hækkun hans fer eftir vali á útfærsluaðferð.

Kynnt er hugmynd að þrepum þar sem fyrsta skattþrep (tekjur 0 til 350 þúsund) gæti verið 32,5%, þrep tvö (tekjur 350 til 775 þúsund) 39%, þrep þrjú (775 til 1.150 þúsund) 47% og þrep fjögur  1.150 þúsund og yfir) 55%. Ekki er ljóst hver álagning verði á ofurtekjur.

Þrjár leiðir

Fram koma í skýrslunni hugmyndir að því hvernig slíkar breytingar yrðu útfærðar með tilliti til persónuafsláttar og annarra þátta. Þá segja skýrsluhöfundar þrjár leiðir færar.

Sú fyrsta þar sem persónuafsláttur er 62 þúsund krónur, sem höfundar segja kosta ríkissjóð í töpuðum tekjum 38 milljarða króna, en 30 milljarða ef tekið er tillit til þeirra tekna sem ríkið mun afla á grundvelli aukinnar neyslu. Þessi leið er sögð næst viðmiðum ASÍ.

Önnur þar sem persónuafsláttur er 65 þúsund krónur sem sagður er kosta 46 milljarða brúttó, en 37 milljarða nettó.

Þriðja leiðin miðar við 70 þúsund króna persónuafslátt og er brútto kostnaður talinn 59 milljarðar, en 48 milljarða nettó.

Hækka fjármagnstekjuskatt um rúmlega þriðjung

Höfundar leggja til að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður úr 22% nær því sem gengur og gerist á Norðurlöndum, en Ísland er með lægsta fjármagnstekjuskattinn.

Landið með næstlægsta skatthlutfallið er Svíþjóð með 30% fjármagnstekjuskatt, á eftir er Noregur með 30,6%, Finnland með 34% og Danmörk með 42%.

Til þess að ná Svíþjóð mun fjármagnstekjuskattur hér á landi þurfa að hækka um 8 prósentustig eða um 34%.

Þá er lagt til að „tekjuskattur fyrirtækja verði miðaður við það að sameinaður skattur af hagnaði fyrirtækja og fjármagnstekjuskattur verði hliðstæður tekjuskatti og útsvari sjálfstætt starfandi af rekstrarhagnaði og miðist við fjórða skattþrep hér að framan að viðbættu útsvari.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur talið skattkerfisbreytingar hluta af …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur talið skattkerfisbreytingar hluta af kjarabaráttu fyrir sína félagsmenn. mbl.is/​Hari

Eignarskattar

Skýrsluhöfundar segja að verulegur og sívaxandi hlutur „heildartekna í samfélaginu liggur í eignasöfnun en kemur ekki fram sem skattskyldar tekjur á framtölum einstaklinga eða félaga þeirra. Auk ójafnræðis veldur þetta vaxandi misskiptingu tekna og örari auðsöfnun fárra.“

Þá telja þeir einu leiðina færa til þess að vega upp á móti þessu vera að innleiða stóreignaskatt. Gjaldstofn hans eigi að vera verðmæti eigna „umfram fríeignamark sem miðist við eðlilegt verðmæti íbúðarhúsnæðis, sumarhúsa og einkabifreiða til eigin afnota“.

Hvað telst eðlilegt verðmæti er ekki tekið fram, en lagt er til að gjaldhlutfallið verði hóflegt að sögn höfunda og verði til dæmis eitt til 1,5%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert