Yfir 80.000 mislingasmit í Evrópu 2018

Hátt þátttökuhlutfall í bólusetningum gegn mislingum er eina leiðin til …
Hátt þátttökuhlutfall í bólusetningum gegn mislingum er eina leiðin til þess að halda mislingafaraldrinum sem geisar í Evrópu frá landinu. mbl.is/​Hari

Rúmlega tíu þúsund einstaklingar á Evrópska efnahagssvæðinu smituðust af mislingum árið 2018, 29% þeirra voru börn undir fimm ára aldri. Sama ár smituðust yfir 80 þúsund í Evrópu allri.

„Þetta er búið að vera viðvarandi vandamál í dálítinn tíma og við höfum verið að benda á þetta mikla mislingasmit í Evrópu þar sem rúmlega tíu þúsund sýktust af mislingum,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hjá embætti landlæknis, í samtali við mbl.is.

Hann segir að eina leiðin til þess að halda sjúkdómnum frá landinu sé að tryggja að sem flestir séu bólusettir gegn mislingum.

„Við viljum helst hafa þátttökuna um 90 til 95% eins og hún er hér. Ég held að þó að hér hafi komið upp stök tilvik erlendis frá, einstaklingar sem hafa verið á ferðalögum og svona, þá höfum við ekki séð nein smit út frá þeim. Þátttakan er það góð hér á Íslandi að það verður ekki meira úr því.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

12.352 tilfelli innan EES 2018

Frá 1. janúar til 31. desember 2018 greindust 12.352 tilfelli mislinga innan Evrópska efnahagssvæðisins samkvæmt tölum Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar. Flest þeirra í Frakklandi (24%), Ítalíu (20%), Grikklandi (19%) og Rúmeníu (9%). Ísland er eina landið í Evrópu þar sem engir mislingar fundust.

Í þeim tilvikum þar sem aldur fylgdi tilkynningu til stofnunarinnar voru 29% smita meðal barna undir fimm ára aldri og 47% meðal einstaklinga yngri en 15 ára. Þá létu 35 lífið vegna sjúkdómsins árið 2018.

Árið 2017 var tilkynnt um 14.451 mislingasmit, þar af greindust þrjú á Íslandi. Flest tilfelli voru í Rúmeníu eða 38% þeirra og á Ítalíu þar sem 35% tilfella greindust.

Mislingasmit á hverja milljón íbúa.
Mislingasmit á hverja milljón íbúa.

Spurður um þann mikla fjölda tilfella sem eru að greinast innan ríkja sem teljast nokkuð þróuð, svarar Þórólfur: „Það er ekki nóg að vera þróað ríki, þátttakan í bólusetningum má ekki detta niður. Það er nú oft að gerast í þessum þróuðu löndum að það er fólk sem vill ekki láta bólusetja börnin. Ef þátttakan dettur niður fyrir um 80 til 90% þá er hætta á því að svona faraldrar geti komið aftur.“

„Ég ítreka enn og aftur mikilvægi bólusetninga og hvað það skiptir miklu máli að halda uppi góðri þátttöku til þess að halda þessum sjúkdómi frá landinu,“ segir hann.

Bólusetningarhlutfall.
Bólusetningarhlutfall.

72 létust vegna mislinga

Ef litið er til Evrópu samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), sem nær auk Evrópska efnahagssvæðisins til 17 annarra ríkja, er talið að 82.596 hafi smitast af mislingum árið 2018.

Þrefalt fleiri greindust með mislinga árið 2018 en árið 2017 og 15 sinnum fleiri en árið 2016 samkvæmt tölum WHO. Þá segir að 72 einstaklingar létust vegna mislinga árið 2018.

Árið 2000 hóf WHO sérstaka herferð til þess að fjölga bólusetningum við mislingum og voru fleiri bólusettir 2017 en nokkru sinni fyrr. Mat WHO er að árangurinn í fjölgun bólusettra „mun ekki duga til þess að stöðva útbreiðslu mislinga“.

Neyðarástand í Washington

Jay Inslee, ríkisstjóri Washington í Bandaríkjunum, hefur lýst yfir neyðarástandi vegna fjölda tilfella mislingasmits í ríkinu. Á fimmtudag voru tilfellin orðin 55 frá áramótum og greindust aðallega meðal barna undir tíu ára aldri. Árið 2000 var því fagnað að sjúkdómnum hefði verið útrýmt í Bandaríkjunum, að því er fram kemur í umfjöllun NPR.

Ríkisstjórinn lýsti yfir neyðarástandi 25. janúar þegar 26 tilkynningar höfðu borist um mislingasmit, en þau hafa nú tvöfaldast á tveimur vikum. Flest greindra tilfella hafa borist frá Clark-sýslu og í kjölfar frétta af mislingasmiti varð um 500% fjölgun bólusetninga í sýslunni, úr 530 í janúar 2018 í 3.150 í janúar 2019.

„Þegar smit breiðist út kemur oft fólk til þess að láta bólusetja sig, sem undir venjulegum kringumstæðum hefur efasemdir um gagnsemi bólusetninga,“ hefur Kaiser Health News eftir Virgina Ramos, hjúkrunarfræðingi við Sea Mar Community Health Center, sem rekur sex bólusetningarstöðvar í sýslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert