Telur þörf á kosningaeftirliti

Jórunn Pála Jónasdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Jórunn Pála Jónasdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Haakon Broder Lund

„Við viljum fyrst og fremst reyna að tryggja að svona lagað endurtaki sig ekki,“ segir Jórunn Pála Jónasdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is en hún ætlar að leggja fram tillögu í mannréttinda- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar á fimmtudaginn um að ráðið beiti sér fyrir því að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hafi eftirlit með kosningum til borgarstjórnar í Reykjavík árið 2022.

Hún hefur þegar sent fyrirspurn til ÖSE varðandi mögulegt eftirlit með borgarstjórnarkosningum, nánar tiltekið varðandi það frá hverjum frumkvæði að kosningaeftirliti eigi að koma og í hvaða tilvikum ÖSE hafi eftirlit með kosningum.

Tilefnið er niðurstaða Persónuverndar um að Reykjavíkurborg hafi brotið gegn lögum um persónuvernd þegar mismunandi skilaboð með bréfum og smáskilaboðum voru send til ungra kjósenda, kjósenda yfir 80 ára og erlendra ríkisborgara fyrir borgarstjórnarkosningarnar á síðasta ári. Umrædd vinnsla persónuupplýsinga hafi falið í sér annað en hlutlaus skilaboð með upplýsingum um kosningarétt og framkvæmd kosninga.

Skapar ákveðinn freistnivanda

Fyrsta skrefið er að sögn Jórunnar að beina fyrirspurnum vegna mögulegs kosningaeftirlit til forstjóra lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra og borgarastjóra. Jórunn segir aðspurð að vonir standi til þess að svar berist í vikunni. Þegar það gerist verði næstu skref ákveðin.

„Það var auðvitað mjótt á munum í þessum kosningum,“ segir Jórunn og vísar einnig til þess að skoðanakannanir hafi bent til þess að þeir flokkar sem verið hafi í borgarstjórn á þessum tíma hafi átt sóknarfæri hjá einkum ungum kjósendum. 

„Það skapar ákveðinn freistnivanda ef hægt er að standa svona að málum. Sérstaklega ef það er enginn eftirlitsaðili.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert