Mikið slösuð eftir slys í Kaupmannahöfn

Inga María ílengdist í Kaupmannahöfn eftir leiklistarnámið.
Inga María ílengdist í Kaupmannahöfn eftir leiklistarnámið. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska leikkonan Inga María Eyjólfsdóttir lenti í alvarlegu hjólreiðaslysi í Kaupmannahöfn 14. janúar síðastliðinn og liggur enn mikið slösuð á sjúkrahúsi.

Frændi Ingu Maríu, Andri Þór Sigurjónsson, segir í samtali við mbl.is að þó að hún sé vöknuð sé enn langt í land og að baráttan muni taka marga mánuði til viðbótar.

Inga María var að hjóla yfir götu í Nørrebro þegar ekið var á hana og hlaut hún mikla innvortis áverka, heilablæðingu og fjölda beinbrota á vinstri hlið líkamans, en Andri Þór segir hana þó sem betur fer hafa verið með hjálm þegar slysið átti sér stað.

Samkvæmt umfjöllun danska fjölmiðilsins BT, sem birtist daginn eftir slysið, var ökumaðurinn líklega að keyra of hratt og hafði lögregla áður haft afskipti af honum. Maðurinn hefur verið ákærður vegna slyssins.

Inga María ásamt Rannveigu móður sinni og Vigfúsi bróður sínum.
Inga María ásamt Rannveigu móður sinni og Vigfúsi bróður sínum. Ljósmynd/Aðsend

Þegar fjölskylda Ingu Maríu fékk fregnir af slysinu flaug hluti hennar út til Kaupmannahafnar. Þar á meðal var Andri Þór, sem segir það hafa verið erfitt að horfa upp á frænku sína sem var haldið sofandi eftir slysið.

„Það er framgangur, en hann er hægur,“ segir Andri Þór, en um þessar mundir er unnið að flutningi Ingu Maríu yfir á endurhæfingardeild.

Móðir Ingu Maríu, Rannveig Vigfúsdóttir, sem búsett er á Íslandi, hefur setið yfir Ingu Maríu á sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn síðan slysið varð. Andri Þór vakti á því athygli á Facebook að hægt væri að styðja fjölskylduna til þess að hún gæti einbeitt sér almennilega að bata Ingu Maríu með því að leggja inn á reikning bróður hennar, Vigfúsar Almars Eyjólfssonar, númer 544-26-62406 á kennitölu 240688-2559.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert