Þarf ekki lengur að sýna hvar Ísland er á kortinu

Isavia vinnur að því að fjölga þeim flugfélögum sem fara …
Isavia vinnur að því að fjölga þeim flugfélögum sem fara um Keflavíkurflugvöll. Í fyrra flugu 28 flugfélög um flugvöllinn alla vega hluta úr ári. mbl.is/Eggert

Það er ekki lengur þörf á að sýna hvar Ísland er á kortinu, en það er þó vissulega miserfitt að sannfæra flugfélög um að fljúga hingað. Þetta sagði Grétar Már Garðarsson, viðskiptastjóri flugfélaga hjá Isavia, á fundi Íslandsstofu um markaðssókn í ferðaþjónustu sem haldin var á Grand hóteli nú síðdegis.

„Við hittum til dæmis EasyJet fyrst árið 2004 og þeir fóru svo að fljúga hingað 2012,“  sagði hann. „Annað dæmi er Finnair sem við hófum viðræður við haustið 2014 og svo komu þeir hingað vorið 2017.“ Mikið markaðsstarf er unnið innan Keflavíkurflugvallar til að fá fleiri flugfélög til landsins.

Gestir á fundi Íslandsstofu um markaðssókn ferðaþjónustunnar á Grand hóteli.
Gestir á fundi Íslandsstofu um markaðssókn ferðaþjónustunnar á Grand hóteli. mbl.is/​Hari

Skoða möguleikann á Asíuflugi

Töluvert hefur verið um sviptivinda í flugheiminum undanfarið og segir hann Isavia líta svo á að það borgi sig að fjölga eggjunum í körfunni og þannig hafi Isavia til að mynda farið í heimsókn í höfuðstöðvar þriggja asískra flugfélaga í fyrra til að skoða möguleikann á beinu flugi þeirra hingað til lands.

Um 9,8 milljónir farþega fóru um Keflavíkurflugvöll í fyrra og var það 12% aukning frá fyrra ári.

Með auknum fjölda flugfélaga má segja að það séu fleiri egg í körfunni en Icelandair og WOW air,“ segir Grétar Már. „Árið 2015 voru önnur flugfélög en Icelandair og WOW air með 28% af öllum komum og brottförum til landsins. Á  síðasta ári var þetta hlutfall hins vegar komið upp í 35% og þetta teljum við vera mjög mikilvægt fyrir okkur til að dreifa áhættunni.“

Vægi annarra flugfélaga en þeirra íslensku hefur enda aukist á Keflavíkurflugvelli undanfarin ár. „Árið 2005 flugu tvö flugfélög hingað á heilsársgrundvelli, en í fyrra voru þau orðin 10.“ Þeim flugfélögum sem fljúga um Keflavíkurflugvöll hefur þá fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2010 og í fyrra flugu 28 flugfélög um flugvöllinn alla vega hluta úr ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert