Að sýna samkennd skiptir máli

Guðrún Ingibjörg hefur gaman af áskorunum og hana langar í …
Guðrún Ingibjörg hefur gaman af áskorunum og hana langar í sérnám í bráðalækningum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í starfi læknis erum við að vinna með fólk í erfiðum aðstæðum og það kom mér á óvart hvað gert er ráð fyrir litlum tíma til að sinna mannlegu hliðinni. Áherslan er því miður á að keyra áfram, enda mikið álag allsstaðar í heilbrigðiskerfinu, starfsfólk hefur nánast engan tíma til að gefa sér stund til að sýna þá nánd sem oft er nauðsynleg. Ég sem læknanemi hef minni skyldur og færri sjúklingum að sinna heldur en starfandi læknar, og fyrir vikið hef ég meira svigrúm. Starfandi læknir hefur ekki tíma til að sitja heilt kvöld á rúmstokki hjá manni sem nýlega missti konuna sína og ræða við hann skáldsögur Halldórs Laxness og ljóð Hannesar Péturssonar, eins og ég gat gefið mér tíma til þegar ég fann að maðurinn þurfti á því að halda.“

Þetta segir Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir, læknanemi á sjötta og síðasta ári í læknisfræði, sem skrifaði athyglisverða hugleiðingu í nýútkomið Læknablað, en þar kom hún m.a. inn á hversu miklu máli henni finnst skipta að sýna samkennd sem læknir í samskiptum við sjúklinga.

„Það er klárlega meiri áhersla á mannlega þáttinn í læknanáminu en áður var. Við læknanemar erum til dæmis látin gera samtalsæfingar í tengslum við að flytja slæmar fréttir, þá leikum við lækni og sjúkling í þeim aðstæðum. Við fáum til dæmis ákveðið módel um það hvernig segja skal manneskju slæm tíðindi, í hvernig skrefum það er gert. En vissulega er það allt annað að segja bekkjarbróður áslíkri æfingu að einhver nákominn sé dáinn, heldur en að þurfa að segja það við ókunna manneskju þegar um raunverulegt andlát er að ræða. Reynslan mun auðvitað vera besti skólinn í því.“

Venjumst seint dauðanum

Ingibjörg segist halda að allir heilbrigðisstarfsmenn fari í gegnum ákveðið ferli í tengslum við að sætta sig við dauðann. „Það er innbyggt í okkur mannfólkið að reyna að fresta dauðanum eins og hægt er. Og þegar ekki er lengur hægt að fresta honum, þá er ákveðinn hjalli að komast yfir að dauðinn sé eðlilegur hluti af lífinu. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að ég ákvað að vera í sex vikur á líknardeild í mínu vali á lokaárinu, því mér fannst ég þurfa að kynnast þessum hluta af lífinu aðeins betur,“ segir Guðrún Ingibjörg og bætir við að nú séu lífslok orðin henni aðeins kunnuglegri og eðlilegri, því margir hafi kvatt á þeim sex vikum sem hún hefur starfað á líknardeildinni. „En ég held að maður venjist aldrei alveg dauðanum, heldur læri að umgangast hann.“

En hvernig gengur henni að aðskilja sig sem manneskjuna Guðrúnu Ingibjörgu og verðandi lækni? Er ekki erfitt að passa að taka ekki allt inn á sig sem á sér stað í vinnunni, en leggja líka áherslu á að sýna samkennd og láta sig varða um sjúklingana?

„Þetta er mjög fín lína og fólk er auðvitað mis-hlýlegt að eðlisfari. Ég get ímyndað mér að það sé ákveðin aðferð til að verja sig að vera fjarlægur í samskiptum við sjúklinga, líka til að brenna ekki hreinlega út. Enda kemur fram í nýrri könnun um líðan lækna á Íslandi að um helmingur þeirra hefur íhugað að skipta um starf, vegna álagsins. Margir finna fyrir einkennum kulnunar og þunglyndis, svo það þarf vissulega að passa sig. Þetta er heilmikil kúnst að gefa af sér án þess að það ræni mann allri orku, en passa líka að vera ekki kaldur eða vélrænn í samskiptum við sjúklinga og aðstandendur.“

Tárast með sjúklingum

Guðrún Ingibjörg segir að það sé stór hluti af hennar persónuleika að vilja gefa af sér og það hafi átt sinn þátt í því að hún valdi að fara í læknisfræði. „Reyndar villtist ég hálfpartinn í læknisfræði, en ég kann mjög vel við mig, sérstaklega í öllum þessum mannlegu samskiptum sem starfinu fylgja. En ég er meðvituð um að ég muni klárlega ekki hafa allan þann tíma sem ég vil til að sýna nánd þegar ég byrja að starfa í haust sem læknir ákandídatsári. En auðvitað getur maður alltaf reynt að gefa af sér innan þess tíma sem maður hefur, þó það megi auðvitað aldrei verða á kostnað læknisfræðinnar sjálfrar. Og ég veit
vel að fólk hefur misjafnar áherslur, og vissulega þarf að passa að ganga ekki of langt inn í samkenndina. Mér finnst sjálfri allt í lagi að tárast með sjúklingunum mínum ef svo ber undir, mér finnst það merki um að mér er ekki sama ef viðkomandi líður mjög illa. En öðrum finnst það alls ekki í lagi, þetta er eitthvað sem hver og einn þarf að meta fyrir sig. Og svo þarf maður að vera læs á persónu hvers og eins sjúklings, sumum hentar mögulega ekki að þeim sé sýnd tilfinningaleg nánd, á meðan aðrir fagna því. Alúð stendur ekki fyrir það sama hjá öllum, hver og einn verður að finna sína nálgun. Og það geta ekki allir sýnt sömu samkenndina, það er betra að sleppa því að segja eitthvað vélrænt sem á að vera huggandi ef þú meinar það ekki, því þá virkar það falskt. Þetta þarf að koma frá hjartanu.“

Hefur gaman af áskorunum

Guðrún Ingibjörg hefur ekki ákveðið í hvaða sérnám hún ætlar sér, en hún kann vel við sig á bráðamóttökunni í Fossvoginum þar sem hún starfar núna, svo hún segir ekki ólíklegt að hún sérhæfi sig í bráðalækningum.

„Á bráðamóttökunni er mikill hraði og mjög lítill tími til að sinna hverjum og einum. Í slíkum massalækningum er það mikil áskorun að gefa af sér. Þegar maður sér tíu beinbrot á einni vakt þá verður hvert beinbrot lítið mál. En ef maður setur sig í spor þess sem beinbrotnar, þá er það meiri háttar mál fyrir viðkomandi og setur stórt strik í daglegt líf hans um langan tíma. Í hraða bráðadeildar er áríðandi að hafa þetta í huga. En þar sem ég hef alltaf haft gaman af áskorunum þá er það hluti af því að ég heillast af því að starfa á bráðamóttökunni. Það er mikil áskorun að færa samkenndina inn í aðstæður þar sem mjög takmarkaður tími er fyrir hvern og einn sjúkling,“ segir Guðrún Ingibjörg sem fer eftir sitt kandídatsár í sérnám til útlanda. „Ég tel allar líkur á að ég komi til baka til að starfa á Íslandi, því ég er mikill Íslendingur í mér og mig langar að búa hér.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert